Kennarar fjölmenntu við menntamálaráðuneytið

Mörg hundruð kennarar gengu að Ráðhúsinu og menntamálaráðuneytinu í morgun.
Mörg hundruð kennarar gengu að Ráðhúsinu og menntamálaráðuneytinu í morgun. mbl.is/Kristinn

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, og ráðuneytisstjóri menntamálaráðuneytisins, eru stödd í París og tóku því ekki við yfirlýsingu félaga grunnskólakennara vegna kennaraverkfallsins, sem til stóð að að afhenda í ráðuneytinu um tíuleytið í morgun.

Mörg hundruð kennarar fóru ásamt forsvarsmönnum kennarafélaganna að Ráðhúsi Reykjavíkur og menntamálaráðuneytinu til þess að afhenda yfirlýsingarnar.

„Yfirmaður menntamála á Íslandi getur ekki firrt sig ábyrgð þegar 45 þúsund börn á grunnskólaaldri fá ekki notið lögbundins réttar síns til menntunar og 4.500 grunnskólakennarar hafa lagt niður störf,“ sagði meðal annars í yfirlýsingu kennara sem Ólafur Loftsson, formaður svæðisfélags Kennarasambands Íslands í Reykjavík, ætlaði að afhenda ráðherra.

Þar sem ráðherra gat ekki tekið við yfirlýsingunni tóku fulltrúar í móttöku menntamálaráðuneytisins við henni. Voru kennarar heldur ósáttir með að forsvarsmenn menntamála hjá ríki og borg væru ekki á landinu og ynnu að lausn mála. Áður en farið var að menntamálaráðuneytinu höfðu kennarar gert tilraun til að afhenda borgarstjóra eða formanni fræðsluráðs hjá Reykjavíkurborg, aðra yfirlýsingu.

Þórólfur Árnason, borgarstjóri og Stefán Jón Hafstein, formaður fræðsluráðs, reyndust heldur ekki á landinu.

„Grunnskólakennarar furða sig á því að borgarstjóri og formaður fræðsluráðs skuli ekki vera á landinu þegar 1.500 grunnskólakennarar í Reykjavík hafa lagt niður störf og þúsundir barna á grunnskólaaldri fá ekki notið lögbundins réttar síns til menntunar,“ sagði meðal annars í yfirlýsingunni sem afhent var í Ráðhúsinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert