Vafasamt er að niðurhal til einkanota sé ólöglegt athæfi

Þegar menn hala niður og dreifa höfundarvörðu myndefni og tónlist með skráaskiptaforritum eru þeir klárlega að fremja lögbrot. Það er hins vegar vafasamt að það sé ólöglegt að hala niður efni sem hefur verið sett á Netið með ólögmætum hætti, svo lengi sem það sé eingöngu gert til einkanota og ekki dreift til annarra.

Þetta er mat Eiríks Tómassonar, prófessors við Háskóla Íslands og lögmanns Sambands tónskálda og eigenda flutningsréttar, STEF. Hann segir að það sé tvímælalaust brot á höfundarrétti að setja verk á Netið, án samþykkis höfundar, þar sem það sé gert aðgengilegt hverjum sem er. Samkvæmt höfundarlögum megi ekki gera eintök af verki höfundar eða birta það nema með hans samþykki. Samkvæmt lögunum sé þó heimilt að gera eintök af myndverkum og tónlist, m.a. með því að hala það niður af Netinu, til einkanota. Frekari eintakagerð eða áframsending til annarra sé hins vegar brot á rétti höfundar. Ef mönnum sé það ljóst að með því að taka niður verk af Netinu fyrir sjálfa sig séu þeir um leið að senda það áfram um Netið til annarra séu þeir augljóslega að brjóta gegn rétti höfunda.

Þar af leiðir að notendur skráaskiptaforrita, líkt og þeir sem handteknir voru á þriðjudag, stunduðu ólöglega iðju.

Eiríkur segir að hann þekki ekki málsatvik til hlítar en þó virðist sem þeir sem voru handteknir hafi verið meðvitaðir um að þeir legðu stund á lögbrot. Þeir hafi gert sér grein fyrir því að þeir hafi ekki bara tekið á móti efni heldur einnig stundað dreifingu samtímis.

Öðru máli gegnir um efni sem halað er niður til einkanota. Eiríkur segir að í dönsku höfundarlögunum sé beinlínis kveðið á um að ef efni hefur verið sett á Netið með ólögmætum hætti sé einnig ólöglegt að hala því niður. Engin sambærileg ákvæði sé að finna í íslenskum lögum og því sé vafasamt að telja slíkt lögbrot. Kæmi til refsimáls væri a.m.k. líklegt að sakborningar sem eingöngu væru ákærðir fyrir niðurhal á ólögmætu efni yrðu sakfelldir heldur yrðu þeir látnir njóta vafans.

Um tölvuforrit, þ.ám. tölvuleiki gilda aðrar reglur en Eiríkur segir að niðurhal á þeim, án samþykkis rétthafa, sé alltaf óleyfilegt.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert