Breskir vísindamenn segjast vera agndofa yfir ratvísi íslenskra jaðrakana sem þeir hafa fylgst með. Komið hefur í ljós að fuglapör hafa vetursetu í mismunandi löndum og eiga ekki samskipti svo mánuðum skipti en einhvern veginn vita þeir upp á hár hvenær þeir eiga að snúa aftur til Íslands á varpstöðvarnar.
„Þegar karl- og kvenjaðrakanar snúa aftur á hreiðursvæðin á Íslandi á vorin eru þau ótrúlega samstillt," segir Jenny Gill, líffræðingur hjá East Anglia háskólanum við Reutersfréttastofuna. „Við erum agndofa yfir þessu."
Gerð er grein fyrir rannsóknunum í breska tímaritinu Nature og eru höfundar greinarinnar Tómasa Grétar Gunnarsson, líffræðingir, Þorlákur Sigurbjörnsson, Jenny Gill og W.J. Sutherland. Vísindamennirnir höfðu gert því skóna, að jaðrakanapör dveldu saman á veturna og ferðuðust saman til varpsvæðanna á vorin. En að sögn Gill hefur komið í ljós, að karl- og kvenfuglarnir fari á mismunandi staði, jafnvel til mismunandi landa og séu jafnvel í um 1700 km fjarlægð hvort frá öðru yfir veturna.
„Og samt koma þau til hreiðurstöðvanna nánast á sama tíma svo aðeins skeikar 2-3 dögum," segir Gill.
Það tekur jaðrakanastofninn um mánuð að komast til Íslands frá vetrarstöðvunum víðsvegar í Evrópu. Pörin koma yfirleitt á sama tíma en ef einhver einstaklingur kemur of seint tekur makinn sér annan maka.
Gill segist þekkja tvö dæmi um skilnaði af þessu tagi og í báðum tilfellum hafi kvenfuglinn komið á undan maka sínum. Hún gafst upp á bíða og náði sér í annan karl.
Gill og félagar hennar uppgötvuðu þessa óvæntu ratvísi jaðrakanna með aðstoð fjölda fuglaáhugamanna um alla Evrópu. Vísindamennirnir merktu fuglana og sjálfboðaliðar fylgdust síðan með því þegar þeir komu til vetrarstöðvanna og fóru þaðan.
Gill segist enga skýringu hafa á því hvernig fuglarnir fara að því að rata. Vitað sé að pörin hittast ekki á vetrarstöðvunum og þau hittast heldur ekki á leiðinni til Íslands. Þau sjá ekki hvort annað fyrr en þau koma á sitt svæði. Segist Gill gruna, að þetta eigi við um margar fleiri fuglategundir en jaðrakan.