Nautið Guttormur á afmæli í dag, 12. október, og er orðinn 12 ára gamall. Guttormur býr í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum þar sem hann deilir fjósi með kúnum Búkollu og Slaufu og tveimur nautkálfum sem enn hafa ekki fengið nafn.
Samkvæmt upplýsingum frá Fjölskyldu- og húsdýragarðinum mun dagurinn þó ganga sinn vanagang hjá Guttormi þrátt fyrir tímamótin. Dýrahirðar mæta venjulega í fjósið klukkan 7 og gefa Guttormi tæpt kíló af graskögglum og lætur húsráðandinn vita ef honum finnst hlutirnir ekki ganga nægilega hratt.
Á meðan kýrnar eru mjólkaðar gæðir Guttormur sér á heytuggu. Að mjöltum loknum fara Guttormur og kýrnar út á meðan verið er að þrífa, en yfir sumartímann eru þau úti nær allan daginn. Þegar þau koma aftur inn er hey í jötunum hjá þeim sem þau gæða sér á allan daginn og taka á móti gestum í fjósið.
Guttormur fékk dýnu að gjöf í tilefni 10 ára afmælisins sem hann liggur á mestallan daginn. Seinni mjaltir hefjast klukkan 16:30 og þá fær Guttormur seinni skammtinn af graskögglunum, tæplega eitt kíló og nægju sína af heyi fyrir nóttina.