Almyrkvi á tungli í nótt

mbl.is/Helgi G.

Almyrkvi varð á tungli í nótt og sást hann vel hér á landi, eins og þessi mynd ber með sér. Almyrkvinn stóð yfir í 81 mínútu. Að honum loknum hófst deildarmyrkvi aftur, en í öfugri röð, þar sem tunglið færðist smám saman úr alskugganum. Myrkvinn hófst skömmu eftir miðnætti, eða kl. 00.06, og lauk 06.03.

Tunglmyrkvar verða þegar tunglið gengur inn í skugga jarðar þegar jörðin er stödd milli sólar og tungls. Í umfjöllun Sævars Helga Bragasonar í fréttabréfi Stjörnuskoðunarfélagsins segir að þegar tunglið er komið inn í alskuggann hverfi það ekki alveg vegna þess að skuggi jarðar er ekki algjörlega dökkur.

„Tunglið tekur þá á sig dökkrauðan eða kopar-appelsínugulan lit. Þessi litbrigði koma frá sólarljósinu sem fer í gegnum örþunna brún á lofthjúpi jarðarinnar og fellur á tunglið. Ryðrauði liturinn er sá sami og við sjáum við sólarupprás og sólsetur á jörðinni,“ segir í greininni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert