Þrír Íslendingar fylgjast með forsetakosningum í Úkraínu

Haldið var upp á það í Úkraínu í dag að …
Haldið var upp á það í Úkraínu í dag að 60 ár eru liðin frá frelsun landsins úr höndum nasista í síðari heimsstyrjöldinni. AP

Þrír Íslendingar munu fylgjast með forsetakosningum, sem fara fram í Úkraínu á sunnudag. Eru Íslendingarnir á vegum íslensku friðargæslunnar að beiðni Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) og er hlutverk þeirra að fylgjast með því að lýðræðislegra leikreglna sé gætt en eftirlitsmennirnir hafa ekki úrskurðarvald um neitt sem tengist kosningunum.

Íslensku eftirlitsmennirnir eru Ellý Katrín Guðmundsdóttir, forstöðumaður Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkurborgar, Arna Schram, blaðamaður á Morgunblaðinu og Tómas Orri Ragnarsson, sendiráðsritari í utanríkisráðuneytinu. Þau fóru til Úkraínu 26. október sl.

Fram kemur í Stiklum, vefriti utanríkisráðuneytisins, að íslensk stjórnvöld leggi mikla áherslu á að staðreynt verði að framkvæmd kosninganna takist með lýðræðislegum hætti. Eftirlitsmennirnir gefa skýrslu um hvaðeina sem þeir verða vitni að og er athugasemdum þeirra safnað saman hjá kosningaeftirlitsstjórn ÖSE sem hefur aðsetur í Kíev og gefur hún út umsögn um framkvæmd kosninganna að þeim loknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert