Skýrsla nefndar um atvinnu- og byggðamál í Norðvesturkjördæmi verður kynnt á kjördæmisþingi Framsóknarflokksins í Borgarnesi í dag, með yfir 50 tillögum til aðgerða. Þar er m.a. lagt til að ríkisstjórnin ákveði formlega að næsta uppbygging stóriðju erlendra fyrirtækja verði á Norðurlandi vestra og virkjanleg orka svæðisins verði nýtt til atvinnuuppbyggingar þar.
Ríkisstjórnin leggi til fjármuni í undirbúning iðjuvera og fjárfestum verði beint í Norðvesturkjördæmið.
Nefndin var skipuð að frumkvæði og hvatningu Halldórs Ásgrímssonar, forsætisráðherra og formanns Framsóknarflokksins, sem fengið hefur skýrsluna í hendur. Í nefndinni sátu einkum sveitarstjórnarmenn úr röðum framsóknarmanna í kjördæminu. Var henni m.a. ætlað að skilgreina aðgerðir sem geta stöðvað þá fólksfækkun sem hefur orðið í Norðvesturkjördæmi á síðustu árum, einkum Vestfjörðum og Norðurlandi vestra.