Arnar Stefánsson, rekstrarstjóri Bensínstöðvarinnar á Ísafirði, dró í dag niður fána Skeljungs og Olís og dró í staðinn að hún fána Olíufélagsins Esso en félögin þrjú hafa rekið Bensínstöðina sameiginlega. Með þessum táknræna hætti lauk áratuga löngu samstarfi og samrekstri olíufélaganna á Ísafirði. Fána Skeljungs og Olís setti Arnar í umslag sem send verða félögunum í pósti.
Olíufélagið hefur ákveðið að hætta þátttöku í samrekstri bensínstöðva á landinu og hefur þar með ákveðið að taka yfir rekstur bensínstöðvarinnar á Ísafirði. Í niðurstöðu samkeppnisráðs, sem birt var í síðustu viku, er lagt fyrir olíufélögin að hætta samrekstri bensínstöðva innan sex mánaða.
Hjörleifur Jakobsson forstjóri Olíufélagsins segir við fréttavefinn bb.is að nú hafi verið tekin sú ákvörðun að taka fyrir öll samskipti við önnur olíufélög og starfsmenn þeirra. Einn þáttur í þeirri ákvörðun hafi verið að hætta strax öllum samrekstri bensínstöðva. Hafi félagið tekið þá einhliða ákvörðun að taka yfir rekstur þeirra bensínstöðva sem félagið hafi haft umsjón með rekstri á undanfarin ár, m.a. stöðvarinnar á Ísafirði. Jafnframt hafi félagið ákveðið að afsala sér tekjum af samrekstri annarra stöðva sem önnur olíufélög hafi borið ábyrgð á. Hjörleifur segir að hér eftir verði einungis seldar olíuvörur frá Olíufélaginu á bensínstöðinni á Ísafirði.