Steinunn Valdís: Auðmjúk frammi fyrir þessu stóra verkefni

Steinunn Valdís Óskarsdóttir, tilvonandi borgarstjóri, og Þórólfur Árnason, fráfarandi borgarstjóri, …
Steinunn Valdís Óskarsdóttir, tilvonandi borgarstjóri, og Þórólfur Árnason, fráfarandi borgarstjóri, í Ráðhúsinu í kvöld. mbl.is/Kristinn

Steinunn Valdís Óskarsdóttir, væntanlegur borgarstjóri í Reykjavík, sagði í þættinum Íslandi í dag á Stöð 2 í kvöld að það hefði ekki hvarflað að henni, þegar hún stóð í ræðustóli á fundi nýlega og lagði til að Þórólfur Árnason yrði borgarstjóraefni Reykjavíkurlistans í næstu kosningum, að tveimur vikum síðar yrði hún sjálf í þeim sporum. „En svona gerast hlutir," sagði Steinunn.

Hún sagði allt of snemmt að segja til um það hvort hún yrði borgarstjóraefni R-listans í næstu borgarstjórnarkosningum. „Ég er mjög þakklát félögum mínum að treysta mér í þetta starf en ég er einnig auðmjúk frammi fyrir þessu stóra verkefni að stýra Reykjavíkurborg vegna þess að borgarstjóraembættið er auðvitað miklu stærra en ég sjálf," sagði Steinunn Valdís.

Hún sagði aðspurð, að alger sátt væri innan borgarstjórnarflokksins um þessa niðurstöðu og hún sagðist ekki kvíða samstarfinu næstu árin. „Það hafa verið fundahöld að undanförnu, sem hafa sýnt styrkleika Reykjavíkurlistans og fólk innan Reykjavíkurlistans er hreinskilið hvert við annað. Við höfum tekist á og höfum komist að sameiginlegri niðurstöðu," sagði Steinunn.

Jóhanna Vilhjálmsdóttir, annar umsjónarmaður þáttarins, spurði Steinunni hvers vegna hún teldi að borgarfulltrúar R-listans hefðu getað sæst á hana sem borgarstjóra. Steinunn Valdís sagðist ímynda sér að það væri vegna þess að frá því hún byrjaði að starfa í stjórnmálum hefði hún verið mikil Reykjavíkurlistamanneskja. Hún hefði hafið sinn feril í Háskólanum í Röskvu, félagi félagshyggjufólks, og það hefði verið rökrétt framhald að fara í Reykjavíkurlistann. „Ég hef alltaf litið á mig fyrst og fremst sem Reykjavíkurlistamanneskju en ekki sem Samfylkingarmanneskju. Ég held að það hafi ráðið úrslitum," sagði hún.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir er 39 ára gömul. Hún lauk BA prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 1992 og tveimur árum síðar var hún kjörin í borgarstjórn Reykjavíkur á vegum Reykjavíkurlistans. Maki Steinunnar Valdísar er Ólafur Haraldsson hönnuður. Hún á eina dóttur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert