Varð að svara játandi

"Starfið er auðvitað mjög stórt og mun stærra en ég sjálf sem einstaklingur. Þegar maður er í stjórnmálum og fær spurningu um það hvort maður vilji taka að sér eitt valdamesta embætti landsins, þá verður maður að svara játandi," sagði nýráðinn borgarstjóri Reykjavíkur, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, í gær.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins kom nafn Steinunnar Valdísar fyrst upp í óformlegum viðræðum innan R-listans um helgina.

Steinunn Valdís tekur við embætti borgarstjóra um næstu mánaðamót þegar Þórólfur Árnason hættir í kjölfar afsagnar sinnar vegna olíumálsins.

Tilkynnt var um arftaka Þórólfs í gær eftir að borgarfulltrúar Reykjavíkurlistans komu sér saman um nýjan borgarstjóra.

Stefán Jón Hafstein, oddviti Samfylkingar í borgarstjórn, tilkynnti val Steinunnar Valdísar á blaðamannafundi í Ráðhúsinu í gær og sagði marga kosti hafa verið kannaða áður en hún var valin. Sagðist hann sjálfur hafa sóst eftir starfi borgarstjóra. "Það hefði verið gaman að takast á við þetta verkefni, ég neita því ekki," sagði hann. "Ég óska Steinunni Valdísi alls hins besta og ég mun auðvitað starfa að mínum málum."

Anna Kristinsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknarflokks, sagðist sátt við val nýs borgarstjóra. Spurð um ágreining um valið innan raða framsóknarmanna sagði hún að menn hefðu haft mismunandi skoðanir á því hver ætti að taka við sem borgarstjóri, "en ég trúi nú ekki öðru en að menn nái fullri sátt um, ef einhver óróleiki er", sagði hún.

Árni Þór Sigurðsson, borgarfulltrúi VG og forseti borgarstjórnar, sagði fulla samstöðu innan R-listans um val nýs borgarstjóra. Honum líst vel á Steinunni Valdísi og telur hana mjög góðan kost fyrir R-listann.

Þórólfur Árnason, fráfarandi borgarstjóri, nýtur þriggja mánaða uppsagnarfrests og heldur því launum borgarstjóra þann tíma. Laun hans í dag eru 871 þúsund krónur á mánuði./4 og14

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert