í upphafi borgarráðsfundar sem hófst í Ráðhúsi Reykjavíkur klukkan ellefu í morgun lagði Þórólfur Árnason fram lausnarbeiðni sína sem borgarstjóri. Jafnframt var lögð fram tillaga borgarráðsfulltrúa Reykjavíkurlistans að Steinunn Valdís Óskarsdóttir yrði ráðin borgarstjóri frá og með 1. desember næstkomandi. Var afgreiðslu málsins vísað til borgarstjórnar.
Þórólfur lagði fram tvær bókanir á fundinum og eru þær eftirfarandi:
Ég stend upp úr stóli borgarstjóra af sömu ástæðum og ég settist í hann. Það er sameiginleg niðurstaða mín og borgarfulltrúa Reykjavíkurlistans að ég láti af störfum borgarstjóra hinn 30. nóvember næstkomandi. Ég er sannfærður um það að það er rétt ákvörðun og ég óska Reykjavíkurborg, starfsmönnum hennar og borgarbúum alls hins besta á komandi tímum. Eftirmanni mínum, borgarfulltrúanum Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, óska ég allra heilla og velfarnaðar. Dugnaður hennar og heilindi í starfi sem borgarfulltrúi Reykjavíkurlistans síðastliðinn áratug hefur skapað henni orðspor sem er henni gott veganesti í því mikla starfi sem bíður hennar sem borgarstjóri í Reykjavík.
Bókun II
Í tilefni opinberra ummæla borgarfulltrúa Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar er lagt fram í borgarráði ráðningarbréf Þórólfs Árnasonar borgarstjóra, dags. 3. febrúar 2003. Í því koma fram hverjum skilmálum ráðning borgarstjóra er bundin og hvernig kjör borgarstjóra eru ákvörðuð. Allar upplýsingar um ráðningu borgarstjóra og starfskjör hans eru opinber og hafa ítrekað verið birtar í fjölmiðlum á síðustu misserum.
Eftirfarandi eru orðrétt ummæli sem höfð voru eftir borgarfulltrúanum í dagblaði þ. 10. nóv. sl.
Þau láta hann hætta og því liggur beint við að ætla að borgarstjóri fái laun út kjörtímabilið. Miðað við að borgarstjóri sé á sömu launum og forsætisráðherra og 19 mánuðir eru eftir af kjörtímabilinu hverfur Þórólfur Árnason á braut með 20 milljónir króna.
Borgarfulltrúinn Vilhjámur Þ. Vilhjámsson var viðstaddur þegar tillaga um ráðningu Þórólfs Árnasonar var lögð fram í borgarráði þ. 14. janúar 2003 og einnig þegar hún var afgreidd í borgarstjórn 16. janúar 2003. Þá lá ljóst fyrir að um ráðningu hans giltu sömu reglur og forvera hans í starfi, en í tillögu um ráðningu hans segir: „Ráðningarkjör hans verði þau hin sömu og gilda skv. reglum um kjör borgarstjóra." Borgarstjórn ákvað árið 1982 að ráðningar- og starfskjör borgarstjóra tækju mið af embætti forsætisráðherra. Samkvæmt ráðningarbréfi nýtur borgarstjóri "sömu almennra réttinda og aðrir starfsmenn Reykjavíkurborgar." Biðlaunaréttur skapast eftir tvö ár í starfi og á því ekki við núverandi borgarstjóra, sem hóf störf 1. febrúar 2003.
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson hefur 22 ára feril að baki sem borgarfulltrúi og hefur setið í borgarráði í 18 ár. Þórólfur Árnason er fimmti borgarstjórinn sem lætur af störfum frá því borgarfulltrúinn var fyrst kjörinn og hefur ráðningarskilmálum borgarstjóra ekki verið breytt síðan. Þá hefur lögfræðingurinn Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson verið formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga í 14 ár. Honum eru því allir hnútar kunnugir í stjórnsýslu sveitarfélaga og Reykjavíkurborgar sérstaklega. Því er ljóst að ofangreind ummæli Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar falla gegn betri vitund. Þau eru vísvitandi rógur.