Eiríkur: „Þeirra skömm mun verða ævarandi“

Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands.
Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands. mbl.is

Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, segir að með ríkisstjórnarfrumvarpinu sé búið að rústa skólaárið. „Skólastarf þurfti á einhverju öðru en þessari óvissu að halda og það er deginum ljósara af hverju sveitarfélögin vildu ekki semja við okkur á einhverjum gáfuðum forsendum. Það var af því að ríkisstjórnin var búin að lofa þeim þessu.“

Eiríkur segir að um sé að ræða einhverja mestu aðför að skólastarfi á Íslandi sem hann muni. „Þeirra skömm mun verða ævarandi. Við erum búin að eiga í þessari kjarabaráttu í allan þennan tíma og datt í hug að með gerðardómsleið, og forsendum þar sem yrði miðað við sambærilega hópa, gætum við fundið lausn á málinu, sem fæli í sér að gerðardómur yrði kallaður saman strax, fengi einhver alvöru viðmið og ætti að skila af sér fyrir áramót,“ segir hann.

„Ég var á fundi inni í verkfallsmiðstöð rétt í þessu og það eru alveg ofboðsleg sárindi og reiði í hópnum. Ekki bættu ummæli menntamálaráðherra á Stöð 2 í gærkvöldi úr, þar sem hún svívirti kennarastéttina. Mér er til efs að kona hafi talað jafn niðrandi um kvennastétt áður á opinberum vettvangi,“ segir Eiríkur.

„Málið er í algjörum hnút og algerri upplausn. Menn völdu ekkert sem við bentum á á fundinum með ríkisstjórninni í gær, en fóru þá leið sem við töldum að væri örugg til að stefna málinu í vandræði,“ segir hann.

Fjölmargir kennarar eru nú komnir niður á Austurvöll, en Eiríkur segir að hinn almenni félagsmaður sé „alveg brjálaður“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert