Hundsmyndin Íslandspósti dýrkeypt

Íslandspóstur var í dag dæmdur til að greiða konu 650.000 krónur fjár- og miskabætur auk dráttarvaxta og 250.000 króna í málskostnað fyrir að nota í heimildarleysi mynd sem hún tók af íslenskum hundi sem fyrirmynd á frímerki.

Dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur segir í dómi sínum, að ljóst væri að fyrirmyndin að frímerki Íslandspósts af íslenska fjárhundinum sé ljósmyndalist í skilningi höfundarlaga og verk konunnar því háð höfundarrétti.

Ekki var ágreiningur um að ljósmyndin var fyrirmynd að umræddu frímerki og segir í dómnum að afnotin - án samþykkis konunnar - væru því af hálfu Íslandspósts saknæmt brot á höfundarrétti hennar. Beri póstinum eftir almennum reglum fébótaréttar að bæta konunni fjártjón og miskabætur sem afnotin hefðu haft í för með sér.

Krafa konunnar um fjórfaldan taxta Myndstefs í bætur þótti hins vegar engum rökum studd. Við ákvörðun bóta var hins vegar tekið tillit til gagna sem Íslandspóstur lagði fram um greiðslur hans fyrir ljósmyndir fyrir frímerki svo og við taxta Myndstefs.

Í dómnum kemur fram að Íslandspóstur breytti umræddri ljósmynd og hafi borið því við að það hafi verið gert til samræmis við ræktunarmarkmið Hundaræktarfélags Íslands. Segir dómari þá fullyrðingu engum haldbærum gögnum studd auk þess sem vandséð væri að þótt svo væri hafi það sjálfkrafa gefið stefnda heimild til breytingar á myndinni.

Loks segir í dómnum að Íslandspóstur hafi ráðið auglýsingastofu til að hanna frímerkið, sem út kom í apríl 2001, og yrði að gera þær kröfur til slíkra fagaðila að þeim væri kunnugt um þau réttindi sem vernduð eru af höfundarlögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert