Steinunn Valdís Óskarsdóttir, borgarfulltrúi R-listans, tók í morgun við embætti borgarstjóra í Reykjavík af Þórólfi Árnasyni. Steinunn Valdís tók við lyklum að skrifstofu borgarstjóra í Ráðhúsinu í morgun og að því búnu gengu hún og Þórólfur um húsið og heilsuðu upp á starfsfólk, samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu borgarstjóra. Fyrsta embættisverk Steinunnar Valdísar verður að undirrita samning um verkefnið Framtíð í nýju landi í Höfða klukkan ellefu í dag.
Um er að ræða samkomulag milli Reykjavíkurborgar, félagsmálaráðherra, menntamálaráðherra, Rauða kross Íslands og Velferðarsjóðs barna. Verkefnið sem um ræðir miðast við ungt fólk af víetnömskum uppruna en á þessu ári eru liðin 25 ár síðan fyrsti hópur Víetnama fluttist til landsins. Segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg að það geti talist tímanna tákn að á fullveldisdegi Íslendinga sé sjónum beint að nýjum Íslendingum og aðlögun þeirra að íslensku samfélagi.
Steinunn Valdís er sextándi borgarstjóri Reykjavíkurborgar.