Helgin nokkuð annasöm hjá lögreglunni í Reykjavík. Fáir voru á ferli í miðbænum aðfaranótt laugardags og sunnudags, en nokkuð um illa drukkna einstaklinga og erfiða viðureignar. Lögreglu var tilkynnt um 7 líkamsárásir og 7 fíkniefnamál komu upp.
Á föstudagsmorgun var tilkynnt um rúðubrot á leikskóla í austurbænum. Kínverji hafði verið límdur á rúðu og hann svo sprengdur. Stuttu seinna var tilkynnt um vatnsleka í fyrirtæki við Hallarmúla. Þar hafði farið í sundur ofnalögn og heitt vatn lekið um eina hæð hússins.
Brotist var inn í skrúðshús kirkju í miðborginni og þaðan stolið beinir (router). Tvær rúður voru brotnar og aðrar skemmdir unnar. Um hádegi á föstudag varð vinnuslys í fyrirtæki í austurborginni þegar slanga gaf sig og 85 - 90 gráðu heitt vatn fór á fætur starfsmanns, sem fluttur var á slysadeild.
Vildi ekki borga leigubílinn
Síðdegis á föstudag var tilkynnt um að jeppakrók hefði verið stolið af jeppabifreið í Mosfellsbæ. Krókurinn er sérsmíðaður og því auðþekkjanlegur.
Rétt eftir miðnætti á föstudag óskaði leigubílstjóri eftir aðstoð frá lögreglu vegna farþega sem hlaupið hafði úr bílnum án þess að greiða áfallið fargjald. Lögreglumaður náði farþeganum á hlaupum og var hann færður á lögreglustöð. Þegar þangað kom æstist farþeginn mjög og hóf að henda til munum. Var hann þá handtekinn og færður í fangageymslu.
Með kannabisplöntu í bílnum
Stuttu seinna var bifreið stöðvuð í austurborginni. Við leit í bifreiðinni fundust fíkniefni og kannabisplanta. Tveir voru handteknir vegna málsins. Í framhaldinu var farið í húsleit á heimili hinna handteknu og þar fundust fleiri kannabisplöntur.
Um tvöleytið aðfaranótt laugardags brutu nokkrir menn sér leið inn í íbúð í Fossvognum og gengu í skrokk á húsráðenda. Skutu þeir sér m.a. leið inn í íbúðina. Málið er í rannsókn hjá lögreglu.
Tilkynnt var um slagsmál á tveimur skemmtistöðum í miðborginni með stuttu millibili. Í báðum tilvikum var einn fluttur á slysadeild með minniháttar meiðsl. Nokkru síðar tilkynnti dyravörður á skemmtistað að hann hefði lagt hald á fölsuð skilríki. Búið var að breyta fæðingarári úr ’88 í ’83. Skírteinið var haldlagt en handhafi þess var farinn.
Í ástaratlotum við pylsuvagn
Snemma á laugardagsmorgun var tilkynnt um fólk í ástaratlotum í bifreið sem lagt var við pylsuvagn í miðbænum. Lögreglan hafði tal af elskendunum, reyndist þetta vilji beggja og var því ekkert frekar aðhafst.
Um hádegi á laugardag var tilkynnt um innbrot og skemmdarverk í bifreið í miðborginni. Þar hafði plastkeilu verið kastað í gegnum rúðu á bifreiðinni og úr henni tekin svört myndavélataska með Sony upptökuvél og Sony stafræn myndavél.
Um miðjan dag á laugardag var tilkynnt um skemmdir sem unnar höfðu verið raflýstum leiðiskrossum í Grafarvogskirkjugarði. Síðdegis á laugardag var kona á áttræðisaldri handtekin vegna veggjakrots í miðborginni. Konan hafði skrifað með tússpenna á vegg stjórnarráðsins.
Konjakið teigað af stút
Rétt fyrir miðnætti var óskað aðstoðar lögreglu á veitingastað í austurborginni. Þar hafði matargestur drukkið eina og hálfa koníaksflösku og neitaði svo að greiða fyrir veitingarnar. Drukkið var af stút þannig að ekki reyndist unnt að bjóða það sem eftir var af flöskunni.
Heildarverðmæti flasknanna er 85-90 þúsund krónur. Stundu seinna var lögregla kölluð til vegna þjófnaðar úr hjálpartækjaverslun sem rekin er á skemmtistað í miðborginni. Þar hafði kona verið tekin fyrir að stela margskonar tækjum til ástarleikja fyrir rúmar 40 þúsund krónur. Maðurinn sem með henni var hafði hins vegar ekki tekið neitt ófrjálsri hendi.
Um hálftvö aðfaranótt sunnudags hringdi kona í lögreglu og tilkynnti að blóð væri um alla íbúð. Illa gekk að fá upplýsingar hjá henni svo sjúkralið og lögregla voru send á staðinn. Konan reyndist vera með lítinn skurð á fingri og fékk hún plástur hjá sjúkraflutningamönnum.
Stúlka með fölsuð skírteini sótti beljaka
Ráðist var á dyravörð á skemmtistað í miðborginni. Stúlka hafði komið að staðnum og reynt að komast inn á fölsuðum skilríkjum. Voru skilríkin haldlögð og hélt þá stúlkan á brott en kom stuttu seinna með tvo þrekna menn með sér sem lömdu dyravörðinn og náði hún skilríkjunum af honum í kjölfarið. Dyravörðurinn var með sprungna vör eftir átökin.
Þá gekk maður berserksgang á skemmtistað í miðborginni og þurfti þrjá dyraverði til að halda honum. Hafði hann m.a. slegið til gesta á staðnum. Um svipað leyti var tilkynnt um slasaðan mann á öðrum skemmtistað í nágrenninu. Sá hafði fengið glas í andlitið og hlotið skurð á vinstra eyra. Hann fór sjálfur á slysadeild.
Braust inn og lagðist til svefns
Snemma á sunnudagsmorgun var tilkynnt með stuttu millibili um innbrot í tvær kjallaraíbúðir í miðborginni. Í báðum tilvikum voru húsráðendur heima. Þegar þeir gerðu vart við sig lét innbrotsþjófurinn sig hverfa. Hann náðist á hlaupum eftir seinna innbrotið.
Þá urðu húsráðendur í íbúð í Hlíðahverfi varir við ókunnugan mann sofandi inni í stofu hjá sér þegar þeir vöknuðu á sunnudagsmorgun. Maðurinn hafði engar skemmdir unnið en var vistaður í fangageymslu sökum ástands.
Í gærkvöldi voru framin tvö rán með stuttu millibili í söluturna í Vesturbænum. Ránsmaðurinn var sá sami í báðum tilfellum og var hann handtekinn á hlaupum skömmu eftir seinna ránið.
Eignatjón í 46 umferðaróhöppum
Tilkynnt var um 46 umferðaróhöpp með eignatjóni í Reykjavík um helgina. Síðdegis á föstudag varð árekstur tveggja bifreiða á gatnamótum Bræðraborgarstígs og Ránargötu. Ökumaður annars bílsins er einungis 15 ára og því réttindalaus. Á föstudagskvöld var ekið niður umferðarskilti á Frakkastíg við Lindargötu. Bifreiðin var ekki á staðnum þegar að var komið en talið er líklegt að þar hafi verið um grænsanseraðan jeppa eða jeppling að ræða.
Seint á föstudagskvöld losnaði hjól undan eftirvagni vörubifreiðar á Vesturlandsvegi og lenti á aðvífandi bifreið. Bifreiðin sem varð fyrir hjólbarðanum var fjarlægð af dráttarbíl en ökumaður hennar slapp ómeiddur.
Á laugardag aðstoðaði lögregla ökumann sem misst hafði stjórn á bíl sínum á Reykjanesbraut vegna ofhlaðinnar kerru. Bifreiðin snérist og lenti upp á umferðareyju og dreifðist farmurinn, steypuklumpar, um eyjuna. Dráttarbíll fjarlægði bílinn og kerruna. Rétt fyrir miðnætti á laugardag var bifreið ekið á staur á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Suðurlandsbrautar. Farþegi í bílnum kvartaði undan eymslum í hálsi og fór sjálfur á slysadeild.
Um helgina voru 12 ökumenn teknir fyrir of hraðan akstur. Sá sem hraðast fór var mældur á 130 km hraða í Ártúnsbrekku þar sem leyfilegur hraði er 80 km/klst. Þá voru 12 ökumenn stöðvaðir, grunaðir um ölvun við akstur.