Úkraínumaður lagði ekki fram umbeðin gögn vegna dvalarleyfis

Úkraínumaður, sem vísað var úr landi í vikunni, var með útrunnið dvalarleyfi hér á landi og hafði ekki lagt fram umbeðin gögn til að fá nýtt leyfi, samkvæmt upplýsingum Hildar Dungal, forstöðumanns stjórnsýslusviðs Útlendingastofu. Maðurinn hafði áður haft hér dvalarleyfi sem námsmaður en það leyfi var útrunnið.

Maðurinn er kvæntur íslenskri konu auk þess sem móðir hans og stjúpfaðir eru búsett hérlendis. Umsókn hans um svokallað makaleyfi var hins vegar synjað þar sem hann er 23 ára en samkvæmt nýjum lögum þurfa erlendir ríkisborgarar að vera orðnir 24 ára til að fá dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar.

Þá segir Hildur það hafa þótt grunsamlegt að maðurinn hafi kvænst eiginkonu sinni skömmu áður en honum hafði verið gert að fara úr landi og að þar sem þau hafi ekki lagt fram gögn sem staðfestu að þau hefðu áður verið í sambúð eða sambandi, hafi ekki verið annað að gera en að vísa manninum úr landi.

Hildur segir einnig að lögin kveði skýrt á um aldurstakmarkanir varðandi makaleyfi en að slík mál séu þó skoðuð vandlega í hverju tilfelli fyrir sig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert