Fjöldi barna með margs konar hegðunar- og geðraskanir, sem fá umönnunarmat frá Tryggingastofnun, hefur meira en tvöfaldast undanfarin fimm ár. Þessi börn voru 1.093 í desember árið 1999 en er nú 2.399, sem er fjölgun um 119%. Af þessum fjölda teljast um 850 börn vera með alvarlegar raskanir og fá foreldrar þeirra sérstakar umönnunarbætur, um 20 þúsund krónur á mánuði. Foreldrar hinna barnanna sem eru um 1.500 fá engar greiðslur en eiga rétt á umönnunarkortum til lækkunar á lyfjakostnaði.
Þau börn sem teljast til þeirra sem hafa hegðunar- og geðraskanir eru t.d. ofvirk börn og börn sem hafa verið greind með athyglisbrest eða hafa kvíðavandamál. Alls eru nú tæplega fimm þúsund börn undir 18 ára aldri með umönnunarmat frá Tryggingastofnun, eða rúm 5% allra barna í landinu. Þar af eru sem fyrr segir 2.399 börn með raskanir margs konar en langveik börn eru 1.628 og fötluð börn 926. Hefur börnum sem þarfnast sérstakrar umönnunar fjölgað um 66% frá árinu 1999 en ef aðeins er skoðaður fjöldi langveikra barna þá hefur þeim fjölgað um 40% og fötluðum börnum um 26%.
Sverrir Óskarsson, félagsráðgjafi hjá Tryggingastofnun, segir að ásókn foreldra í umönnunarmat fyrir börn með hegðunar- og geðraskanir fari stöðugt vaxandi.
Sverrir skýrir aukninguna m.a. með því að fleiri börn fái læknisfræðilega greiningu á sínum vanda, greiningin sé orðin betri og ákveðnari og fleiri börn séu um leið sett á lyf en áður. Margs konar þjónusta og aðstoð, sem þessum börnum standi til boða, sé háð því að umönnunarmat liggi fyrir. Einnig geti skýringar verið að leita í háum lyfjakostnaði, t.d. fyrir ofvirk börn. Breytt þjóðfélagsmynstur tvímælalaust hafi sitt að segja. Félagslegar aðstæður barna hafi breyst, m.a. vegna lengri vinnutíma foreldra og aukinnar þátttöku kvenna á vinnumarkaðnum.