Íbúar Bolungarvíkur beðnir um að vera ekki á ferli að nauðsynjalausu

Almannavarnarnefnd Bolungarvíkur telur ekki nægar forsendur til þess að afturkalla hættustig vegna snjóflóðahættu í bænum. Þetta var ákveðið á fundi nefndarinnar í morgun að höfðu samráði við starfsmenn Veðurstofu Íslands, að því er fram kemur á fréttavef Bæjarins besta. Nefndin mun koma að nýju saman kl. 14 í dag og meta stöðuna á ný.

Vegna ófærðar er fólk beðið að vera ekki á ferli í Bolungarvík að nauðsynjalausu og gæta sérstakrar varúðar í kringum snjóruðningstæki. Engin kennsla verður í Grunnskóla Bolungarvíkur í dag vegna veðurs og ófærðar. Einar Pétursson, bæjarstjóri og formaður Almannavarnarnefndar, segir að enginn íbúi hafi dvalið í húsum þeim sem óskað var eftir að rýmd yrðu vegna sjóflóðahættu. Sem kunnugt er neituðu sex íbúar að yfirgefa hús sín í fyrrinótt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert