Fjárframlög íslenskra stjórnvalda, félagasamtaka, fyrirtækja, sveitarfélaga og einstaklinga til hjálparstarfsins á flóðasvæðunum við Indlandshaf eru nú komin í um 250 milljónir króna. Munar þar mest um 150 milljóna króna framlag sem ríkisstjórnin samþykkti í gær. Af þeirri upphæð fer helmingur til þróunar- og hjálparstarfs á Sri Lanka.
Síðdegis í gær höfðu safnast um 95 milljónir króna hjá Rauða krossi Íslands, þangað sem fjárframlög hafa streymt síðustu daga. Í gær voru t.d. afhentar 10 milljónir króna frá Reykjavíkurborg og þrjár milljónir frá Sambandi íslenskra bankamanna. Þá hefur Hafnarfjarðarbær og Lionshreyfingin á Íslandi lagt til eina milljón hvor aðili og með áheitasöfnun lögðu nemendur í Menntaskólanum í Reykjavík til um 300 þúsund krónur. Þá hafa safnast um fimm milljónir í söfnun Hjálparstarfs kirkjunnar.
Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra og Davíð Oddsson utanríkisráðherra lýsa í samtölum sínum við Morgunblaðið yfir ánægju með þann samhug og stuðning sem Íslendingar hafa sýnt í verki vegna hamfaranna á flóðasvæðunum. "Mér finnst stórkostlegt að sjá hve einstaklingar og fyrirtæki hafa komið vel inn í þennan stuðning. Það er mikilvægt að halda áfram á þeirri braut, að þetta sé ekki eingöngu ríkið heldur við öll sem eitthvað getum látið af hendi rakna," segir Halldór.
Davíð Oddsson segir fólk bersýnilega vera snortið yfir því sem gerst hafi. "Það er mjög gott að sjá hvað Íslendingar ætla að leggja af mörkum. Sem betur fer erum við efnuð þjóð og það er viðeigandi að við látum eitthvað til okkar taka þegar svona atburðir gerast," segir Davíð.