Davíð Oddsson: Nota mætti sölu Símans til að byggja nýtt sjúkrahús

Davíð Oddsson á fundinum í Valhöll í dag.
Davíð Oddsson á fundinum í Valhöll í dag. mbl.is/Þorkell

Davíð Oddsson, utanríkisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, varpaði fram þeirri hugmynd, á opnum stjórnmálafundi á vegum flokksins í Valhöll í dag, að fjármagn sem ríkið fengi við væntanlega sölu á Símanum yrði notað til eins stórs verkefnis, svo sem til þess að byggja nýtt og stórt sjúkrahús sem erfitt væri að reisa á löngum tíma með framlögum á fjárlögum.

Davíð sagði að salan á Símanum væri síðasta stóra einkavæðing ríkisins og auðvitað væri mjög freistandi til að nota þá fjármuni til að greiða niður skuldir þjóðarbúsins eins og áður hefði verið gert. En jafnframt gæfist tækifæri til að veita því fjármagni, sem þannig fengist, í eina átt; að leysa úr læðingi sparnað, sem eitt ríkisfyrirtæki hefði sparað, og veita honum í önnur mál, sem erfitt væri að byggja upp á löngum tíma.

„Því ekki að nota lungann úr þeirri sölu í átak af þessu tagi: Að byggja upp stórt sjúkrahús," sagði Davíð og bætti við, að ef til vill hefði þessari hugmynd verið sprautað í æðar sínar þegar hann lá á Landspítalanum-háskólasjúkrahúsi í sumar og haust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert