Davíð Oddsson, utanríkisráðherra, sagði á stjórnmálafundi Sjálfstæðisflokksins í Valhöll í dag, að það sé fráleitt að halda því fram að Íslendingar séu þátttakendur í stríði í Írak. Hins vegar hefðu Íslendingar tekið undir þau pólitísku sjónarmið, að fylgja skyldi ályktunum öryggisráð Sameinuðu þjóðanna eftir með valdi ef markmið þeirra næðist ekki fram með öðrum hætti.
Davíð sagði að auðvitað væri auðveldasta leiðin fyrir Íslendinga að búa við sitt, leggja ekki nafn sitt við óþægilega hluti og axla ekki ábyrgð. En langt væri síðan Íslendingar hefðu horfið frá því, með inngöngunni í NATO.
Davíð sagði að það væri allt tóm vitleysa að Íslendingar séu þátttakendur í stríði og íslensk stjórnvöld hafi hvorki vald né vilja til að senda menn til ófriðarsvæða gegn þeirra vilja. Íslensk stjórnvöld hefðu hins vegar lýst þeirri pólitísku skoðun og samþykki að fá fram með valdi það sem ekki fékkst án þess. „Það má vel deila um þá afstöðu. En menn eiga þá að deila um rétta hluti og ekki halda því fram að Íslendingar hafi ákveðið að taka þátt í stríðinu," sagði Davíð.
Hann sagði að ekki væri nokkur vinnandi vegur að láta ástandið í Írak vera óbreytt og öll þau ríki, sem lögðust gegn hernaðaraðgerðunum á sínum tíma, væru nú á skjön við umræðuna hér á landi því ekkert ríki vildi að hætt yrði við uppbygginguna í Írak. Spánverjar væru nú að leggja fram 20 milljónir evra til að tryggja að þingkosningar geti farið fram í Írak og Frakklandsforseti hefði sagt í gær, að kosningarnar í Írak verði að fara fram.
Davíð sagði einnig að mun friðvænlegra væri nú í heiminum, einkum eftir fráfall Yassers Arafats, forseta Palestínumanna, sem alltaf hefði verið þröskuldur í vegi friðar.