Eiginnöfnin Amadea, Stína, Svörfuður, Fjalldís, Ebenezer og Susan fengu öll náð fyrir augun mannanafnanefndar á fundi í lok desember sl. enda þykja þau samræmast lögum um mannanöfn. Hafa nöfnin verið færð á mannanafnaskrá.
Samkvæmt vefsíðunni rettarheimild.is fundaði mannanafnanefnd mánaðarlega á síðasta ári.
Samkvæmt úrskurðum sem birtir eru á síðunni samþykkti nefndin 68 nöfn sem hún hafði til umfjöllunar en hafnaði 28.
Meðal þeirra nafna sem voru tekin til greina á sl. ári og færð á mannanafnaskrá voru eiginnöfnin Elektra, Mattý, Vilbjörn, Lingný, Elvin, Nóvember, Orfeus, Váli, Víggunnur, Bryndísa, Sigur, Cýrus, Adel, Marlís, Bambi, Gyðja, Sonný, Dögun og Atlas.
Nefndin hafnaði hins vegar kvenmannsnöfnunum Jóvin, Ástmary, Eline, Anais og Leonida sem og karlmannsnöfnunum Tímótheus, Ganagane, Villy, Patryk, Regin og Konstantínos. Þóttu nöfnin hvorki rituð í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls né hafa unnið sér hefð í íslensku, sbr. lög um mannanöfn frá árinu 1996. Þá voru millinöfnin Matt, Svan og Har samþykkt en Theophilus hafnað. Einnig hafnaði nefndin í maí sl. að kenninafnið Hlöðversson yrði ritað Hlöðvesson, þ.e. að bókstafurinn -r yrði fjarlægður.
Dómsmálaráðherra skipar mannanafnanefnd til fjögurra ára í senn en verkefni hennar eru m.a. að semja skrá um eiginnöfn og millinöfn sem teljast heimil skv. lögum um mannanöfn, að vera prestum, forstöðumönnum skráðra trúfélaga, Hagstofunni, dómsmálaráðherra og forsjármönnum barna til ráðuneytis um nafngjafir og að skera úr álita- og ágreiningsefnum um nöfn og nafnaritun.
Úrskurðum mannanafnanefndar er ekki unnt að skjóta til æðra stjórnvalds.