Helgin, sem nú er liðin, var nokkuð annasöm hjá lögreglunni í Reykjavík. Fram kemur í yfirliti yfir helstu verkefni, að mikið hafi verið um tilkynningar um hávaða vegna samkvæma og flugeldasprenginga. Þá hafi verið algengt að kveikt væri í jólatrjárm, tertum og öðru flugeldarusli auk blaðagáma. Nokkuð var einnig um rúðubrot þar sem flugeldar komu við sögu.
Tilkynnt var um innbrot í skóla í austurborginni á föstudagsmorgun. Rúða var brotin og lá slökkvitæki úr skólanum fyrir neðan hana. Ekki er vitað til þess að neinu hafi verið stolið.
Eftir hádegi á föstudag datt eldri maður í hálku í austurborginni. Hann meiddist á mjöðm og var fluttur á slysadeild í sjúkrabíl.
Síðdegis á föstudag var tilkynnt um innbrot í nýbyggingu í austurbænum. Höfðu þjófarnir hleðsluborvél á brott með sér.
Rétt fyrir kvöldmat var tilkynnt um að mikinn óþef legði frá íbúð á fyrstu hæð í blokk í Breiðholtinu. Íbúar þar höfðu ekki verið heima undangengna daga og erfiðlega gekk að hafa upp á einhverjum með lyklavöld. Að lokum var lásasmiður fenginn til að opna íbúðina. Við athugun kom í ljós að rafmagn hafði farið af íbúðinni og kom lyktin frá frystikistu. Straumur var settur á íbúðina og henni síðan læst.
Á föstudagskvöld var tilkynnt um líkamsárás í austurborginni. Þar hafði tveimur mönnum lent saman og var annað nokkuð lemstraður á eftir. Hann ætlaði að leita sér aðstoðar á slysadeild.
Fremur fáir voru í miðborginni aðfaranótt laugardags en nokkuð var þó um ryskingar, sérstaklega síðla nætur. Eftir miðnætti óskuðu dyraverðir á veitingastað á Seltjarnarnesi aðstoðar lögreglu vegna þjófnaðar. Þar hafði einn af gestum staðarins stolið mynd af vegg en var búinn að skila myndinni þegar lögreglu bar að.
Á fjórða tímanum barst lögreglu tilkynning um eld í bakhúsi við Hverfisgötuna. Enginn íbúi var í húsinu sem brann til kaldra kola. Jafnframt skemmdust tveir bílar sem staðið höfðu við húsið þegar eldurinn kom upp.
Á fimmta tímanum var tilkynnt um mann sem lægi í götunni fyrir framan skemmtistað í miðborginni. Í ljós kom að manninum hafði verið hent út úr bifreið á ferð og hafði hann meðal annars fengið skurð á ennið. Hann var fluttur með sjúkrabíl á slysadeild.
Nokkru seinna var tilkynnt um mann sem lent hafði í átökum við dyraverði á skemmtistað í miðborginni. Var hann fluttur á slysadeild með sjúkrabíl en hugsanlegt var talið að hann væri rifbeinsbrotinn.
Um sexleytið fékk lögregla fregnir af slagsmálum í miðborginni. Var einn maður fluttur á slysadeild af lögreglu. Var hann með áverka í andliti og skurð á hnakka.
Á laugardag var tilkynnt um innbrot í skúr við hús í miðborginni. Þaðan var stolið verkfærum. Þá var tvisvar tilkynnt um þjófnað á númeraplötum. Rétt eftir miðnætti á laugardagskvöld var óskað aðstoðar lögreglu vegna slagsmála við skemmtistað í miðborginni.
Þar hafði hópur pilta sem ekki hafði náð tilskyldum aldri verið meinað um inngöngu á staðinn og sýnt óánægju sína með því að brjóta rúðu á staðnum.
Á öðrum tímanum var tilkynnt um mann sem orðinn var þreyttur á samkvæmishávaða hjá nágranna sínum. Hafði hann knúið dyra hjá nágranna sínum og óskað eftir því að húsráðandi hefði hemil á látunum. Húsráðandinn tók illa í óskir mannsins og skipti þá engum togum að hann óð inn í íbúðina og sleit hljómflutningstækin úr sambandi.
Síðla nætur aðfaranótt sunnudags barst lögreglu tilkynning um ölvaða menn sem væru að henda fiskikörum og vörubrettum í höfnina. Haft var uppi á piltunum og þeim veitt tiltal.
Stuttu síðar var tilkynnt um innbrot í fyrirtæki í Skeifunni. Þjófurinn braut tvær rúður með hamri og náði að stela 4 fartölvum. Hann hafði ætlað að komast undan á bíl sínum en fest bílinn í snjóskafli og orðið að taka leigubíl. Lögreglan lét færa bílinn í port lögreglustöðvarinnar og handtók manninn síðan þegar hann vitjaði bílsins.
Um sexleytið á sunnudagsmorgun voru tvær 17 ára stúlkur staðnar að því að kaupa veitingar á skemmtistað í miðborginni fyrir debetkort sem ekki voru í þeirra eigu. Í ljós kom að þær höfðu verslað fyrir 18.800 krónur með kortum sem þær höfðu stolið. Voru þær fluttar á lögreglustöð og sóttu foreldrar þeirra þær þangað.
Eftir hádegi á sunnudag flutti sjúkrabíll slasaðan dreng á slysadeild. Drengurinn hafði verið á skíðum í skíðabrekkunni við Jafnasel og var talið að hann hefði fótbrotnað.
Þá var lögregla kölluð til vegna sem stokkið hafði úr stólalyftu á skíðasvæðinu í Skálafelli. Lyftan hafði stöðvast í smástund vegna bilunar og hafði maðurinn ætlað að stökkva úr lyftunni. Ekki vildi betur til en svo að úlpa mannsins flæktist í hliði lyftunnar og barst hann með lyftunni í smástund eftir að hún komst í gang aftur. Maðurinn kvaðst finna til í mjóbaki eftir atburðinn en ekki var talin þörf á að senda eftir sjúkrabíl.
Síðdegis á sunnudag var tilkynnt um innbrot í hús í Grafarvogi. Þaðan var m.a. stolið snjóbretti, geislaspilara, útivistarfatnaði, málverkum, DVD-myndum og fleiru.
Aðfaranótt mánudags hafði lögregla hendur í hári manns sem gekk á milli stöðumæla og saug smápeninga úr þeim með nokkurs konar ryksugu. Hafði hann komist yfir u.þ.b. kíló af smápeningum með þessum hætti. Maðurinn var handtekinn og myntsugan haldlögð.