Umhverfisráðuneytið hefur ákveðið að áfrýja til Hæstaréttar dómi sem Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp í dag um fyrirhugað álver á Reyðarfirði, að sögn Magnúsar Jóhannessonar, ráðuneytisstjóra í umhverfisráðuneytinu. „Dómurinn kemur okkur á óvart og við teljum að niðurstaðan sé röng. Höfum við í samráði við ríkislögmann ákveðið að áfrýja málinu til Hæstaréttar,“ sagði Magnús í samtali við fréttavef Morgunblaðsins.
Dómurinn ómerkti, að kröfu Hjörleifs Guttormssonar, fyrrverandi ráðherra, úrskurð umhverfisráðherra frá 15. apríl 2003, þar sem staðfest var ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 20. desember 2002 um að álver fyrir allt að 322 þúsund tonna ársframleiðslu þyrfti ekki að sæta umhverfismati. Dómurinn vísaði frá þremur öðrum kröfum Hjörleifs.
Þegar var búið að meta umhverfisáhrif af 420 þúsund tonna álveri en svo var ákveðið að minnka álverið í 322 þúsund tonn. Samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur mátti Skipulagsstofnun ekki gera undanþágu þannig að minnkað ver þyrfti ekki að fara í sérstakt umhverfismat.
Magnús segir að Skipulagsstofnun hafi metið áhrif breytingarinnar og að úrskurður dómsins um að þurft hafi að gera sérstakt mat fyrir minni verksmiðju, komi á óvart. „Skipulagsstofnun lagði á sínum tíma mat á hvaða áhrif breytingin myndi hafa á umhverfið. Þegar var búið að gera umhverfismat á 420 tonna álveri og þegar ákveðið var að minnka það lagði stofnunin mat á breytinguna. Okkur þykir ekki að dómurinn hafi hrakið það mat stofnunarinnar.“