Tæplega helmingur innflytjenda hér á landi telur að stjórnmálaflokkar standi sig illa í að kynna sig og sín málefni fyrir fólki sem skilur litla íslensku og 39% þeirra hafa hug á að stofna eigið fyrirtæki. 92% þeirra hafa áhuga á að læra íslensku betur. Eru þetta niðurstöður nýrrar rannsóknar sem gerð var á viðhorfum og aðstæðum innflytjenda á Vestfjörðum og Austurlandi.
Könnunin var lögð fyrir innflytjendur sem þurfa atvinnu- og dvalarleyfi áður en komið er til landsins og tala pólsku, ensku, taílensku, serbnesku eða króatísku. „Mér finnst standa upp úr hvað er mikið frumkvæði í þessum hópi en 39% hafa hug á að hefja eigin rekstur eða stofna fyrirtæki. Við ættum að skoða hvort þarna séu ekki tækifæri til að virkja fólk,“ segir Elsa Arnardóttir, framkvæmdastjóri Fjölmenningasetursins.
Bendir hún líka á að það sé sláandi að 80% svarenda hafi gert ráðningarsamning á vinnustað sínum en um 62% hafi ekki skilið samninginn að hluta til eða öllu leyti.
„Það vantar greinilega meiri tækifæri til að læra tungumálið en 92% þátttakenda vilja læra betri íslensku. Við þurfum líka að huga að fjölbreytni þar, það er misjafnt hvað fólk þarf mikinn stuðning til að læra nýtt mál. Það hefur mismikinn tíma, ólíkan bakgrunn og menntun og svo skiptir líka máli hvort móðurmál þess er líkt eða ólíkt íslensku.“
Svörunin í könnuninni var um 58% og segir Elsa það ánægjulegt hvað hún hafi verið mikil, niðurstöðurnar séu því góð vísbending um hvar þurfi að vinna betur að málefnum innflytjenda.