Krefst 94 milljóna vegna vanefnda

Norskur maður, eigandi fyrirtækisins Scandinavian Historic Flight (SHF), hefur stefnt Arngrími Jóhannssyni, öðrum aðaleiganda flugfélagsins Atlanta, og krefst þess að hann greiði honum 94 milljónir fyrir að standa ekki við samning sem hann segir að Arngrímur hafi gert um kaup á helmingshlut í fyrirtækinu.

Arngrímur hafði í gærmorgun ekki séð stefnuna og vildi ekki tjá sig um málið að svo stöddu.

Fyrirtækið SHF og dótturfélag þess í Bandaríkjunum hafa átt og rekið fimm flugvélar sem hafa sögulegt gildi. Flugvélarnar hafa verið sýndar á flugsýningum og verið notaðar við gerð kvikmynda.

Í stefnunni kemur fram að Norðmaðurinn, Anders K. Saether, hafði samband við Arngrím í júlí 2003 og bauð honum að kaupa hluti í félaginu, en það mun hafa átt í fjárhagserfiðleikum á þeim tíma. Hann hafi komið til Íslands í desember og fljótlega tekist góð kynni með honum og Arngrími. Eftir talsverðan aðdraganda hafi samningaviðræður leitt til þess að 2. mars 2004 hafi Arngrímur hringt og staðfest samning um kaup á 50% hlut í SHF fyrir 94 milljónir. Kveðst Saether hafa sent samninginn með hraðpósti til Íslands daginn eftir. Arngrímur hafi fljótlega lýst því yfir að hann ætti erfitt með að greiða fyrir hlutaféð. Hinn 14. mars hafi fulltrúi Arngríms síðan tilkynnt að ekki gæti orðið af samningnum.

Norðmaðurinn segist hafa orðið fyrir umtalsverðu fjárhagstjóni af þessum völdum og vegna vanefnda sé tvísýnt um áframhaldandi rekstur félagsins. Krefst hann bóta á grundvelli þess að skuldbindandi samningur hafi komist á og Arngrímur hafi ekki getað fallið einhliða frá samningnum.

Stefnan hefur verið þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert