Kröfu um að trúnaði verði aflétt af Íraksmáli hafnað

Meirihluti utanríkismálanefndar Alþingis hafnaði í gær kröfu Guðmundar Árna Stefánssonar, fyrir hönd Samfylkingarinnar, um að aflétta trúnaði af fundargerðum utanríkismálanefndar, þar sem Íraksmálið svonefnda var rætt.

Að sögn Sólveigar Pétursdóttur, formanns utanríkismálanefndar, var málið tekið fyrir í nefndinni og áréttað að trúnaðarskylda í nefndinni er ótvíræð og hefur verið um áratuga skeið, samanber túlkun á 24. gr. laga um þingsköp Alþings. Þetta hafi og verið undirstrikað í bókun nefndarinnar frá 28. janúar sl. og segir Sólveig að allir nefndarmenn hafi þá skrifað undir bókunina.

"Ég tel að það væri mjög varhugavert að aflétta trúnaði af fundargerðum nefndarinnar, því það gæti haft alvarlegar afleiðingar á störf nefndarinnar í framtíðinni," segir Sólveig. Nefndarmenn og gestir hennar mættu þannig eiga von á því síðar meir að krafa yrði höfð uppi um afléttingu trúnaðar á því sem fram hafi farið á fundum nefndarinnar. Í viðkvæmum málum, eins og öryggis- og varnarmálum, gæti hugsast að menn hefðu síður látið ummæli falla, t.d. skoðanir sínar á afstöðu annarra ríkja, ef þeir ættu von á að trúnaði yrði síðar meir aflétt.

Sólveig segir að greinargerð um störf nefndarinnar frá upphafi hafi verið lögð fram á fundi hennar á föstudag. Í því sambandi megi nefna að ef slakað yrði á kröfum núna væri hætta á að utanríkismálanefnd yrði óstarfhæf eins og gerðist á árunum eftir 1950 og fram á miðjan sjöunda áratug.

Gagnrýni stjórnarandstöðu með ólíkindum

Sólveig segir að það gildi einu um ákvörðun nefndarinnar í þessu máli, eins þótt aðilar innan hennar sem hafi tjáð sig um Íraksmálið á fundum hennar, hafi látið í ljós að þeir vilji aflétta trúnaði. Meirihluti nefndarinnar hafi hafnað beiðni Guðmundar Árna.

Sólveig sagði um gagnrýni stjórnarandstöðu á þessa ákvörðun að það sé með ólíkindum að verið sé að tortryggja þá grundvallarreglu sem gildi um störf viðlíkra nefnda í þjóðþingum allra lýðræðisríkja.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka