Frumvarp um að sýna megi beint frá knattspyrnuleikjum án íslensks tals

Sigurður Kári Kristjánsson og fimmtán aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokks hafa lagt fram á Alþingi frumvarp til breytinga á útvarpslögum um að sjónvarpsstöðvar megi sýna beint frá íþróttaviðurðum án þess að því þurfi að fylgja íslenskt tal eða texti á íslensku.

Er með þessu frumvarpi verið að bregðast við þeim úrskurði útvarpsréttarnefndar, að Skjá Einum sé óheimilt að sýna beint frá enskum knattspyrnuleikjum með lýsingu enskra þula.

„Núgildandi útvarpslög fela í sér mismunun og ójafnræði gagnvart þeim aðilum sem starfa á þessum markaði,” sagði Sigurður Kári í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins. „Sumum er heimilt að senda út sjónvarpsefni án texta eða íslenskrar lýsingar viðstöðulaust tuttugu og fjóra tíma sólarhrings, en ef menn kjósa að vera með slíkar útsendingar sem hluta af sinni dagskrá er þeim það óheimilt. Þetta er ástand sem þarf að lagfæra,” segir hann. „Og þetta er meginástæða þess að frumvarpið er lagt fram.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert