Halldór: Hvorki tímabært né skynsamlegt að fara í aðildarviðræður á kjörtímabilinu

Halldór Ásgrímsson á flokksþingi Framsóknarflokksins í dag.
Halldór Ásgrímsson á flokksþingi Framsóknarflokksins í dag. mbl.is/Golli

Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, sagði í yfirlitsræðu sinni á flokksþingi Framsóknarflokksins, að hann teldi hvorki tímabært né skynsamlegt að fara út í aðildarviðræður við Evrópusambandið á þessu kjörtímabili, eins og lagt er til í drögum að ályktun flokksins um utanríkismál, sem liggur fyrir flokksþinginu. Sagði Halldór að slíkt væri ekki í samræmi við sáttmála ríkisstjórnarinnar.

„En við eigum heldur ekki að vera feimin við að ræða málið fordómalaust í grasrótinni eða hér á flokksþinginu því að ákvörðun um aðild kann að koma fyrr en seinna," sagði Halldór.

Hann sagði að drög að ályktunum, sem lægju fyrir þinginu, hefðu verið mótuð af þrettán málefnahópum sem öllum félagsmönnum gafst kostur á taka þátt í. Mörg hundruð skráningar hafi borist og margir hefðu lagt mikið á sig við að vinna drögin. Þetta hefði verið unnið með mjög opnum og lýðræðislegum hætti og sagðist Halldór telja það til fyrirmyndar að vinna að stefnumótun á þennan hátt. Minnti hann á, að mörg af stærstu málum flokksins á undanförnum árum hefðu einmitt orðið til í slíku lýðræðisstarfi grasrótarinnar í flokknum. Nægði að nefna 90% húsnæðislán fyrir alla í því sambandi.

Síðasta ár leikskóla verði gjaldfrítt
Halldór nefndi einnig hugmyndir, sem hefðu komið fram í málefnahópnum um menntamál um betri samtengingu hinna mismunandi skólastiga meðal annars með því að gera síðasta ár leikskólans að skyldunámi og þar með gjaldfrítt.

„Ég tel að slíkar hugleiðingar snúi að uppbyggingu þess samfélags sem við búum í og viljum móta til framtíðar. Um þessi mál er til að mynda fjallað í fjölskyldunefnd sem ég hef skipað og ég bind miklar vonir við. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að stefna að því að ríkið og sveitarfélögin geri átak í leiksskólamálum í því augnamiði að stórlækka gjaldtöku. Leikskólinn er fyrsta skólastigið og þar fer fram afar gott og mikilvægt uppeldisstarf. Ég tel að stórlækkun leikskólagjalda væri mikið kjaramál fyrir fjölskyldurnar í landinu og vil beita mér fyrir því að það verði sem fyrst að veruleika. Vona ég að innan Framsóknarflokksins séu fleiri sömu skoðunar," sagði Halldór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert