Vegna mistaka voru fjölmargir greiðsluseðlar VÍSA Ísland sendir til rangra aðila nú um mánaðarmótin. Samkvæmt upplýsingum fyrirtækisins má rekja mistökin til breytinga í tækni og verklagi við útsendinu seðlanna en mistökin felast í því að þar sem fleiri en einn korthafi eru með sama heimilisfang t.d. í sama stigagangi í fjölbýli, lentu fleiri en einn seðill hjá sama aðilanum.
Einungis er um greiðsluseðla að ræða en færsluyfirlit eru í aðskilinni sendingu og eiga að skila sér til réttra aðila.
Í yfirlýsingu frá VISA Ísland kemur fram að fyrirtækið taki á sig alla ábyrgð á mistökunum og að það biðji þá sem verða fyrir óþægindum vegna þeirra innilega afsökunar. Þá segir að það muni senda þeim korthöfum sem málið varðar leiðbeiningar um framhaldið.