Tæplega þrítugur maður hefur verið dæmdur í fimm mánaða fangelsi fyrir að særa blygðunarsemi tveggja fyrrverandi nemenda sinna sem voru á 14. og 15. ári er hann braut gegn þeim. Fullnustu þriggja mánaða af refsingunni var frestað um þrjú ár.
Maðurinn framdi brot sín gegn stúlkunum á tímabilinu september 2003 til júní 2004. Viðhafði hann kynferðislegt og klámfengið tal í fjölmörgum af þeim 3.720 smáskilaboðum sem hann sendi úr GSM-síma sínum í síma stúlknanna á þessum tíma.
Þá var hann sakfelldur fyrir að hafa beðið aðra stúlkuna um að sýna sér brjóstin, kyssa hana og spurt hvort hún vildi eiga við hann munnmök. Hann var hins vegar sýknaður af því að hafa í heitum potti við sundlaug strokið læri hennar og nára.
Segir í dómi Héraðsdóms Vesturlands frá í gær að þótt stúlkan hafi verið einlæg og sjálfri sér samkvæm í frásögn sinni byggi sakargiftir um atvikið í sundlauginni á ófullburða rannsókn lögreglu.
Í dómnum segir að brot mannsins séu alvarleg trúnaðarbrot því hann hafi verið umsjónarkennari stúlknanna og hafi þær litið upp til hans og átt að geta treyst honum sem leiðbeinanda og kennara. Að auki hafi hann verið tæplega þrítugur þegar atvik hafi átt sér stað og aldursmunur því mikill á honum og stúlkunum.
Loks segir að stúlkunum hafi stafað mikil ógn af manninum, en hann hafi m.a. hótað þeim ef málið kæmist upp. Hafi báðar upplifað félagslega útskúfun og tortryggni af hálfu bæjarbúa. Brot ákærða hafi verið alvarleg og hann gróflega brotið allar skyldur sínar gegn stúlkunum. Hafi þær báðar orðið fyrir miskatjóni af af völdum háttsemi er maðurinn bæri ábyrgð á.
Báðar stúlkurnar eru fæddar árið 1989. Maðurinn var dæmdur til að borga annarri þeirra 250.000 krónur í miskabætur og hinni 200.000 krónur. Auk þess allan sakarkostnað, þar með talin 220.000 króna málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og 180.000 krónu þóknun til réttargæslumanns brotaþola.
Sá hluti refsingar mannsins sem var frestað að fullnægja fellur niður eftir þrjú ár haldi hann almennt skilorð.