Lóðum undir 200 námsmannaíbúðir úthlutað í Grafarholti

Borgarráð Reykjavíkur samþykkti í dag að úthluta Byggingafélagi námsmanna lóðum undir allt að 200 námsmannaíbúðir við Klausturstíg og Kapellustíg í Grafarholti. Framkvæmdir við íbúðirnar munu hefjast fljótlega.

Deiliskipulag svæðisins var staðfest 17. febrúar síðastliðinn og segir skrifstofa borgarstjóra, að úthlutun lóðanna í dag sé í samræmi við fyrirheit sem Reykjavíkurborg gaf Byggingafélaginu síðastliðið sumar, en árið 2001 fékk Byggingafélag námsmanna úthlutað lóðum undir 18 íbúðir í Grafarholti.

Þá hefur lóðum undir námsmannaíbúðir einnig verið úthlutað til Félagsstofnunar stúdenta, síðast lóðum undir 46 íbúðir við Lindargötu, en alls er gert ráð fyrir um 100 stúdentaíbúðum þar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka