Borgarráð Reykjavíkur samþykkti í dag að úthluta Byggingafélagi námsmanna lóðum undir allt að 200 námsmannaíbúðir við Klausturstíg og Kapellustíg í Grafarholti. Framkvæmdir við íbúðirnar munu hefjast fljótlega.
Deiliskipulag svæðisins var staðfest 17. febrúar síðastliðinn og segir skrifstofa borgarstjóra, að úthlutun lóðanna í dag sé í samræmi við fyrirheit sem Reykjavíkurborg gaf Byggingafélaginu síðastliðið sumar, en árið 2001 fékk Byggingafélag námsmanna úthlutað lóðum undir 18 íbúðir í Grafarholti.
Þá hefur lóðum undir námsmannaíbúðir einnig verið úthlutað til Félagsstofnunar stúdenta, síðast lóðum undir 46 íbúðir við Lindargötu, en alls er gert ráð fyrir um 100 stúdentaíbúðum þar.