Elías Jón Guðjónsson, oddviti Háskólalistans, var kosinn formaður Stúdentaráðs á skiptafundi ráðsins nú í hádeginu með 2 atkvæðum en 18 stúdentaráðsliðar Vöku og Röskvu sátu hjá við kosninguna. Niðurstöður kosninga til Stúdentaráðs þann 9. og 10. febrúar síðastliðinn voru þannig að engin þeirra þriggja fylkinga sem buðu fram náði meirihluta, líkt og verið hefur undanfarin ár.
Í tilkynningu frá Vöku segir, að eftir kosningarnar hafi farið í gang viðræður milli fylkinganna um skipulag ráðsins og skiptingu embætta og hafi þær viðræður dregist mjög á langinn. Niðurstaða þeirra er sú að Elías Jón verði formaður, þrátt fyrir að koma úr þeirri fylkingu sem fékk fæst atkvæði af þeim þremur sem sitji í ráðinu. Á skrifstofu Stúdentaráðs muni starfa starfsmenn frá bæði Vöku og Röskvu. Af fastanefndum Stúdentaráðs muni Vaka leiða þrjár nefndir, Röskva þrjár og Háskólalistinn eina nefnd.
„Vaka hefði viljað sjá aðra útkomu úr viðræðunum en í ljósi úrslita Stúdentaráðskosninganna er þessi niðurstaða illskásti kosturinn í stöðunni. Háskólalistinn gaf út þá yfirlýsingu strax eftir Stúdentaráðskosningarnar að fylkingin ætlaði ekki í meirihlutasamstarf, hvorki með Vöku né Röskvu. Tilraunir Háskólalistans til að mynda stjórn með báðum fylkingum hafa gengið illa og leitt til alvarlegrar stjórnarkreppu í ráðinu sem staðið hefur yfir í tæpar fimm vikur. Þrátt fyrir þennan langa tíma er niðurstaða viðræðnanna á þá leið að hvorki Röskva né Vaka geta fyllilega sætt sig við niðurstöðuna og sáu sér aðeins fært að verja hana með hlutleysi sínu. Nýtt ráð hefur formlega hafið störf og er það von Vöku að starf ráðsins í vetur gangi vel og þessi byrjun verði ekki til að draga úr því öfluga starfi sem unnið hefur verið undanfarin ár í þágu stúdenta," segir í tilkynningunni.