Bíræfni þjófa virðast lítil takmörk sett ef marka má aðfarir þeirra á bílastæðum við Kópavogskirkju og Digraneskirkju á skírdag. Á meðan fermingarathafnir fóru fram notuðu þjófarnir tækifærið og gengu á bíla sem í voru fermingargjafir. Voru rúður brotnar og pakkarnir teknir en í þeim voru armbandsúr, veski og snyrtivörur að sögn lögreglunnar í Kópavogi.
Fyrra tilvikið átti sér stað við Kópavogskirkju um kl. 11 en skömmu eftir hádegið var aftur tilkynnt um þjófnað á fermingarpakka, í þetta sinn á bílastæði við Digraneskirkju.
Lögreglan í Kópavogi vill af þessu tilefni hvetja fólk til að vera ekki með verðmæti í bílum sínum sem freistað geta þjófa. Þjófum er ekkert heilagt í þessum efnum og geta þeir stolið fermingarpökkum jafnt sem öðrum verðmætum ef þeir blasa við augum í gegnum bílrúður.
Um hver jól er varað við að fólk skilji jólagjafir eftir í bílum sínum því talsverð brögð eru að því að þeim sé stolið og virðist hið sama eiga við um fermingargjafirnar.