Fjarskiptafyrirtækjum er gert skylt að halda skrá yfir þá sem úthlutað hefur verið símanúmerum í farsíma- og fastlínukerfum og ber kaupanda símakorts jafnframt að framvísa skilríkjum við kaup kortsins, að því er fram kemur í drögum að frumvarpi að breytingu á fjarskiptalögum sem fjallað var um í ríkisstjórn í gær.
Þarna er um nýmæli að ræða þar sem til þessa hefur ekki verið skylt að skrá nafn við kaup á svonefndu símafrelsi, en fram kemur að óskráð símanúmer valdi vandkvæðum í lögreglurannsóknum þegar þau séu notuð á ólöglegan hátt, eins og til að mynda þegar settar eru fram hótanir í tali eða með SMS-skilaboðum. Þá tengist óskráð símanúmer oft fíkniefnabrotum og torveldi hlerun og rannsókn lögreglu á slíkum málum.
Í frumvarpsdrögunum er einnig að finna ákvæði sem gera fjarskiptafyrirtækjum skylt að varðveita lágmarksskráningu gagna um fjarskiptaumferð viðkomandi notanda í eitt ár í þágu rannsókna opinberra mála og almannaöryggis. Skuli skráningin tryggja að hægt sé að upplýsa hver hafi verið notandi tiltekins auðkennis, símanúmers, IP-tölu eða notendanafns, auk þess að upplýsa um allar tengingar viðkomandi, tímasetningar, tímalengd, hverjum var tengst, magn gagnaflutnings og hvort notandinn hafi haft frumkvæði að tengingu eða ekki. Er fjarskiptafyrirtækinu óheimilt að nota eða afhenda umræddar upplýsingar öðrum en lögreglu eða ákæruvaldi.
Þá er fjarskiptafyrirtækjum einnig gert skylt að tryggja án endurgjalds þar til bærum yfirvöldum aðgang að búnaði til hlerunar símtala og annarrar löglegrar gagnaöflunar í fjarskiptanetum sínum eða fjarskiptaþjónustu.