Atvinnuleysi í mars 2005 mældist 2,6% og er það umtalsverð lækkun frá sama tíma á síðasta ári þegar það var 3,5%. Segir Vinnumálastofnun, að þessa lækkun atvinnuleysis megi sjá bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Atvinnuleysi hefur lækkað jafnt og þétt frá áramótum, var 3% að jafnaði í janúar, 2,8% í febúar og er nú 2,6%.
Vinnumálastofnun segir, að laus störf í lok marsmánaðar hafi verið 1128 eða 50 færri en í lok febrúar. Fækkunin stafi aðallega af færri lausum störfum á Austurlandi sem nemur um 126. Laus störf séu flest á Austurlandi eða 347 í lok mars og alls séu um 31% lausra starfa á Austurlandi og um 29% á höfuðborgarsvæðinu.
Vinnumálastofnun segir, að umsvif fari almennt vaxandi á þessum árstíma. Verkbeiðnir til vinnumiðlana um ráðningu starfsfólks hafi víða aukist, mest til starfa í byggingariðnaði, en einnig til ýmissa þjónustustarfa eins og umönnunarstarfa.
Fjöldi atvinnulausra var 4069 í lok mars og fækkaði um 415 frá lokum febrúar. Segir Vinnumálastofnun, að af þessu framansögðu sé líklegt er að atvinnuleysið í apríl minnki og geti orðið á bilinu 2,4- 2,7%.
Greiningardeild KB banka segir í ½5 fréttum í dag, að töluverður stígandi hafi verið í eftirspurn eftir vinnuafli á síðastliðnum misserum sem merkja megi m.a. af auknum launahækkunum, en launavísitalan hafi hækkað um 6,7% á síðastliðnum 12 mánuðum, Vinnumarkaðurinn sé að hitna með vaxandi efnahagsumsvifum sem geti ekki talist góðar fréttir fyrir þróun vísitölu neysluverðs á komandi misserum þar sem verðbólgan mælist nú 4,7% og sé fyrir ofan efri þolmörk verðbólgumarkmiðs stjórnvalda.