Öryrkjabandalagið um fjölgun öryrkja: Ráðist verði að rótum vandans

Öryrkjabandalag Íslands segist leggja áherslu á að ráðist verði að rótum þess vanda sem fjallað er um í skýrslu Tryggva Þórs Herbertssonar, hagfræðings, um ástæður fjölgunar öryrkja á Íslandi. Lýsir Öryrkjabandalagið sig reiðubúið til samstarfs við stjórnvöld og aðra þá sem að því starfi þurfi að koma.

Í tilkynningu frá Öryrkjabandalaginu segir, að skýrslan sé á margan hátt athyglisvert innlegg í þarfa umræðu um þessi málefni. Skýrslan staðfesti þau tengsl sem Öryrkjabandalagið hafi haldið fram að séu á milli atvinnustigs og örorku. Að því leyti komi niðurstöður hennar ekki á óvart.

Þá segir bandalagið, að augljóst sé að ýmsar forsendur, sem höfundur gefi sér, þarfnist nánari skoðunar, auk þess sem efnistök höfundar séu þröng og taki mið af einstaklingnum. Sleppt sé að fjalla um þá samfélagsgerð sem einstaklingurinn búi við, þróun hennar og ábyrgð þeirra sem að málum koma.

Þá sé ekki að finna í skýrslunni neinn kerfisbundinn samanburð á velferðarkerfi Íslendinga og annarra þjóða, sem Íslendingar beri sig saman við,hvorki varðandi fjölda öryrkja né upphæðir bóta. Efast megi um að skýrslan gefi raunhæfa mynd af tekjum öryrkja þar sem ekki sé byggt á skattagögnum sem gæfu raunhæfari mynd af tekjum þessa hóps en þau gögn sem höfundur noti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka