Má ekki birta upplýsingar um fyrrverandi maka í Íslendingabók

Persónuvernd hefur komist að þeirri niðurstöðu, að óheimilt sé að skrá og birta upplýsingar um fyrrverandi maka manns á ættfræðivefnum Íslendingabók, gegn andmælum mannsins.

Persónuvernd barst á síðasta ári tölvupóstur frá karlmanni þar sem hann kvartaði yfir því að á vefnum Íslendingabók væru upplýsingar um fyrrverandi eiginkonu hans. Þar sem þau hafi aldrei átt börn saman geti slíkt ekki talist til ættfræðiupplýsinga heldur upplýsinga um hans einkamálefni. Fram kom að maðurinn hafði þegar leitað til ábyrgðaraðila Íslendingabókar en án árangurs.

Í úrskurði Persónuverndar segir, að til þessa hafi stofnunin litið svo á að menn geti vart varist því að í ættfræði- og æviskrárritum birtist um þá almennar lýðskrárupplýsingar, s.s. um nafn og kennitölu, nöfn niðja, foreldra og núverandi maka, um menntun og opinberar stöður sem menn hafa gegnt. Hins vegar sé eðlilegt að sýna eðlilega tillitssemi og byggja á samþykki hlutaðeigandi fyrir birtingu annarra upplýsinga, einkum um hjúskaparstöðu annars fólks (s.s. foreldra), um nöfn fyrri maka, barnsfeðra/mæðra, um einkunnir, ættleiðingu o.s.frv.

Að því er varði birtingu nafna fyrri maka í æviskrárritum, þá hafi Persónuvernd, og áður tölvunefnd, talið hana geta orkað tvímælis, nema í þeim tilvikum þegar hún hefur byggst á samþykki hins skráða. Með vísan til þessa telur Persónuvernd óheimilt hafi verið að skrá og birta í Íslendingabók upplýsingar um fyrrverandi maka kvartanda, gegn andmælum hans.

Úrskurður Persónuverndar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka