Lögreglan á Akureyri hefur að undanförnu rannsakað alvarlega líkamsárás er átti sér stað að kvöldi föstudagsins 11. mars sl. Það kvöld tilkynnti 17 ára gamall piltur að hann hafi verið lokkaður upp í bifreið til manna sem hann þekkti lítið og í kjölfarið var honum misþyrmt. Pilturinn sagði lögreglu að hann hefði það eitt unnið til sakar að hafa boðið systur eins brotamannanna upp í bíl sinn og segir lögregla að hinir grunuðu hafi staðfest það.
Pilturinn var eins og áður sagði lokkaður upp í bíl. Var honum síðan skipað að fara ofan í farangursgeymslu bílsins og var ekið út fyrir bæinn þar sem bíllinn var stöðvaður. Út komu tveir menn sem slógu piltinn í andlitið þar sem hann lá í myrkri niðri í farangursgeymslunni. Einnig ógnaði annar maðurinn honum með kúbeini. Síðan var ekið til baka að svæði við Kalbaksgötu þar sem nokkur verkstæði eru til húsa. Þar var farangursgeymslan aftur opnuð og pilturinn sleginn. Þá var honum kippt upp úr skottinu og sparkað í andlit hans meðan hann stóð uppi og trampað ofan á höfði hans eftir að hann féll niður á planið. Bolur sem hann klæddist var rifinn utan af honum. Hann var rifinn úr skóm og sokkum og buxurnar slitnar af honum. Pilturinn var svo dreginn ber eftir malarlögðu planinu sem var að hluta til þakið snjó.
Eftir að hafa bæði barið og sparkað í piltinn tóku árásarmennirnir föt hans, peninga og síma og óku á brott. Pilturinn stóð þá einn eftir í kulda og myrkri með stórt svöðusár á baki. Eftir þetta komst hann við illan leik hálfnakinn og berfættur upp í miðbæ Akureyrar þar sem hann var að sæta færis til að komast inn á leigubifreiðastöðina BSO þegar skólafélagi hans kom þar að fyrir tilviljun og veitti honum aðstoð.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Akureyri áttu alls fimm manns aðild að árásinni og hafa þeir allir komið við sögu í fíkniefnamálum í bænum. Þrír höfðu sig mest í frammi. Ekki er um að ræða sömu menn og voru að verki þegar 12 kúlum var skotið úr loftbyssu á annan 17 ára pilt á Akureyri nýlega.
Lögreglan segir, að árásarmennirnir hafi nú viðurkennt að hafa sammælst um að gefa rangan framburð af málsatvikum þegar þeir voru fyrst yfirheyrðir hjá lögreglu, en skriður komst á málið í tengslum við rannsókn fíkniefnamála sem lögreglan á Akureyri hefur unnið að á undanförnu. Segir lögreglan málið teljast nánast fullrannsakað og verði það sent ríkissaksóknara eftir helgi.