Háskólinn í Reykjavík svarar prófessorum og kennurum við HÍ

Fullyrðing félags prófessora og félags háskólakennara í Háskóla Íslands þess efnis að sá háskóli beri óumdeilanlega höfuð og herðar yfir aðra háskóla í landinu á sviði framhaldsnáms og rannsókna tekur ekki tillit til öflugrar uppbyggingar í öðrum háskólum á Íslandi um þessar mundir, segir Guðfinna S. Bjarnadóttir rektor Háskólans í Reykjavík.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá HR nú í kvöld. Þar segir ennfremur:

„Við búum við breytt landslag í háskólamenntun þar sem nýir og ferskir straumar leika um. Háskólinn í Reykjavík býður í haust fernskonar meistaranám í viðskiptafræði, þrennskonar meistaranám í kennslu- og lýðheilsufræði, meistaranám í tölvunarfræði og rannsóknartengt meistaranám í lögfræði. Auk þess verður byrjað í haust með fimm nýjar námsbrautir í verkfræði og þrjár námsbrautir í tæknifræði, þar sem í boði verður meistaranám,” segir Guðfinna.

„Þessu til viðbótar má nefna að við Háskólann í Reykjavík starfa nú tíu rannsóknarstofnanir, sem allar hafa veigamiklu rannsóknarhlutverki að gegna og gert er ráð fyrir að doktorsnám hefjist innan tíðar við allar deildir skólans. Það er mikill vöxtur í rannsóknum í Háskólanum í Reykjavík þar sem nú starfa fjölmargir íslenskir og erlendir vísindamenn.“

Guðfinna segir að það sé rétt að auka þurfi fé til rannsókna, það séu margvísleg sóknarfæri og horfa þurfi bæði til fjármagns frá einkaaðilum og ríki. „Á Íslandi er veitt meira fé til rannsókna en meðal flestra Evrópuþjóða, sem hlutfall af þjóðarframleiðslu. Hins vegar kemur mikill hluti þess fjár frá fyrirtækjum í landinu. Háskólinn í Reykjavík horfir til þess að auka fé til rannsókna bæði í samstarfi við opinberar stofnanir og með því að eiga náið samstarf við atvinnulífið í landinu, ekki síst hátæknifyrirtækin, orkufyrirtækin og fjármálafyrirtækin, sem stefna að því að vera leiðandi á sínu sviði á heimsmarkaði. Við þurfum sem þjóð að beina meira fé til rannsókna og háskólamenntunar ef við viljum vera samkeppnishæf alþjóðlega. Þess vegna er skynsamlegt að auka framlög ríkisins til rannsókna í öllum háskólum á Íslandi.“

Guðfinna segir að rannsóknir og háskólamenntun ýti undir nýsköpun í atvinnulífi. Rannsóknarstofnun í nýsköpunar- og frumkvöðlafræðum í Háskólanum í Reykjavík kynnti í dag niðurstöður alþjóðlegrar rannsóknar (Global Entrepreneurship Monitor) sem sýnir að hlutfall þeirra Íslendinga sem taka þátt í frumkvöðlastarfsemi er með því hæsta sem gerist. „Hins vegar bendir dr. Rögnvaldur J. Sæmundsson, sem stýrir rannsókninni á Íslandi, á þá staðreynd að á meðan helmingur frumkvöðlastafsemi í samanburðarlöndunum hvílir á háskólamenntuðum einstaklingum standa háskólamenntaðir á Íslandi aðeins fyrir um 30% af þeirri frumkvöðlastafsemi sem á sér stað hérlendis,” segir Guðfinna. „Markmið okkar er að byggja fyrirtækin okkar á rannsóknum og þekkingu til næstu ár og áratuga og því er mikilvægt fjárfesta í rannsóknum og háskólamenntun.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert