Ók vísvitandi á miklum hraða beint framan á lögreglubifreið

Frá vettvangi í nágrenni Akraness í nótt.
Frá vettvangi í nágrenni Akraness í nótt.

Maður sem grunaður er um ölvun við akstur ók beint framan á bifreið lögreglunnar á Akranesi um ellefuleytið í gærkvöldi með þeim afleiðingum að annar tveggja manna sem voru í lögreglubílnum hlaut minniháttar meiðsl. Maðurinn sem ók á lögreglubílinn var handtekinn á staðnum, en bifreið hans er líklega ónýt. Lögreglubíllinn, sem kastaðist út í skurð, er mikið skemmdur.

Forsaga málsins er sú, að lögreglan á Akranesi var í gærkvöldi beðin um að svipast um eftir manni sem farið var að sakna. Um kl 23 komu lögreglumenn auga á bifreið mannsins á afskekktum stað og héldu í átt að henni. Er lögreglubifreiðin nálgaðist ók maðurinn af stað á móti lögreglubifreiðinni og beint framan á hana á mikilli ferð, með fyrrgreindum afleiðingum.

Á vettvangi er þröngur malarvegur og ekki hægt að mætast. Ökumaður lögreglubifreiðarinnar reyndi að komast hjá árekstri með því að aka afturábak og út í kant vegarins en það dugði ekki til.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert