Erlendar flugvélar stefndu hvor á aðra í sömu flughæð

Myndir tengist ekki efni fréttarinnar með beinum hætti.
Myndir tengist ekki efni fréttarinnar með beinum hætti. AP

Íslenskur flugumferðarstjóri kom í veg fyrir hugsanlegan árekstur þegar tvær erlendar flugvélar stefndu hvor á aðra vestur af landinu. Flugatvikið varð 1. ágúst 2003 og í skýrslu, sem Rannsóknarnefnd flugslysa, RNF, gaf út í gær, kemur fram að önnur flugvélin hafi ekki verið í réttri hæð og henni því skipað að lækka flugið. Mættust vélarnar með þúsund feta hæðaraðskilnaði en átta mílur voru á milli þeirra þegar skipun um lækkun var gefin.

Önnur vélin var eins hreyfils af gerðinni Piper Malibu, í einkaeigu í Bandaríkjunum, en hin af gerðinni BAe146-200, fjögurra hreyfla þota í eigu færeyska flugfélagsins Atlantic Airways. Fyrrnefnda vélin var á leið frá Narssarssuaq á Grænlandi til Reykjavíkur en sú síðarnefnda á leið frá Reykjavík til Narssarssuaq. Báðar vélarnar voru í radarsambandi við íslensku flugstjórnarmiðstöðina í Reykjavík. Minni vélin var í tilskilinni 23 þúsund feta hæð og færeyska vélin átti að vera í 24 þúsund feta hæð en hafði síðan verið beðin að vera í 22 þúsund feta hæð.

Tók ekki eftir mistökunum

Niðurstaða RNF er að samkvæmt verklagi í flugrekstrarhandbókum flugfélagsins hefði flugmaðurinn sem flaug vélinni þá stundina átt að stimpla inn hæðarfyrirmæli í sjálfstýringuna þegar vél er flogið á sjálfstýringu en ekki sá flugmaður sem sá um fjarskiptin og tók við fyrirmælunum. Þegar upplýsingarnar voru komnar í sjálfstýringuna var vélin þar með komin í ranga hæð, þá sömu og vélin á móti. Flugumferðarstjóri sá yfirvofandi hættu og gaf fyrirmæli um að leiðrétta flughæðina tafarlaust. RNF beinir þeim tilmælum til Atlantic Airways að við gæðaeftirlit skuli leggja áherslu á að flugmenn fylgi verklagi fyrirtækisins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert