Alfreð endursendir Monopoly-spil sem SUS gaf honum

Jón Hákon Halldórsson, framkvæmdastjóri SUS, með Monopoly-spilið í höfuðstöðvum OR …
Jón Hákon Halldórsson, framkvæmdastjóri SUS, með Monopoly-spilið í höfuðstöðvum OR í dag.

Ungir sjálfstæðismenn færðu Alfreð Þorsteinssyni, formanni stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur, spilið Monopoly að gjöf í morgun og vildu með því mótmæla fjárfestingum Orkuveitunnar, svo sem á sviði gagnamiðlunar og risarækjueldis.

Alfreð endursendi spilið nú eftir hádegið og biður unga sjálfstæðismenn að færa það Davíð Oddssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, sem hafi í borgarstjóratíð sinni látið reisa stærsta og dýrasta veitingahús norðan Alpafjalla, nefnilega Perluna í Öskjuhlíð, sem sé þungur baggi á rekstri Orkuveitu Reykjavíkur. „Vandséð er hvers vegna sjálfstæðismenn létu orkufyrirtæki í eigu Reykvíkinga byggja þetta veitingahús," segir Alfreð í bréfinu.

Í tilkynningu frá Sambandi ungra sjálfstæðismanna (SUS) segir, að meirihluti stjórnar Orkuveitunnar hafi á fundi í vikunni samþykkt að reisa sumarhúsabyggð við Úlfljótsvatn. Ekki verði séð að þessi uppbygging og rekstur tengist að nokkru leyti rekstri Orkuveitu Reykjavíkur og því skjóti skökku við að fyrirtækinu, og þar með borgarbúum, sé gert að taka þátt í honum. Áður hafi Orkuveitan tekið þátt í rándýrum fjárfestingum, svo sem á sviði gagnamiðlunar og risarækjueldis, sem kostað hafi borgarbúa marga milljarða.

„Það er þess vegna sem ungir sjálfstæðismenn ákveða að færa stjórnarformanninum Monopoly spilið að gjöf, enda snýst spilið um það að leikmenn fjárfesta í götum, húsum og hótelum á höfuðborgarsvæðinu með sérstökum spilapeningum líkt og í gamla Matador spilinu. Er honum því færð gjöfin í þeirri von að hann láti nægja að kaupa eignir fyrir spilapeninga og hætti að leika sér með fjármuni borgarbúa. Jafnframt má minna á að orðið „monopoly“ þýðir einokun og á við um kjarnastarfsemi Orkuveitunnar, sem hefur einokunarstöðu á markaði með raforku, vatn og heitt vatn á höfuðborgarsvæðinu. Ungir sjálfstæðismenn telja þetta eitt ljósasta dæmi þess að opinber einokun er síst skárri en önnur," segir í tilkynningu SUS.

Í bréfi Alfreðs, sem hann sendi til fjölmiðla í dag, segir að á hverju ári greiði Reykvíkingar um 60 milljónir króna með rekstri Perlunnar og þegar stofnkostnaði sé bætt við megi segja, að þetta ævintýri sjálfstæðismanna hafi kostað borgarbúa um 4 milljarða króna.

„Sem Stjórnarformaður Orkuveitunnar hef ég árangurslaust reynt að selja Perluna, en ekki fengið viðunandi tilboð, því miður. Ég tel við hæfi, að ungir sjálfstæðismenn bjóði formanni sínum í Perluna einhvern góðan veðurdag og spili við hann Monopoly í hringekjunni í Öskjuhlíðinni. Að lokum vil ég geta þess, að jörðin Úlfljótsvatn hefur engum arði skilað til þessa, en Orkuveitan hefur hins vegar haft kostnað af henni. Þetta er gömul arfleifð sjálfstæðismanna, sem verið er að bæta fyrir," segir í bréfi Alfreðs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert