Ekki heimilt að gefa stúlku nafnið Annarósa

Mannanafnanefnd hefur hafnað beiðni um endurupptöku ákvarðana nefndarinnar um kvenmannsnöfnin Annarósa og Eleonora. Þá hefur nefndin m.a. hafnað nafninu Mar sem kvenmannsnafni en heimilað karlmannsnöfnin Spartakus og Ljósálfur og kvenmannsnafnið Elínheiður.

Umboðsmaður Alþingis fjallaði nýlega um þá ákvörðun Mannanafnanefndar að hafna erlenda tökuorðinu Annalísa og var m.a. vísað til þess álits umboðsmanns í beiðni um endurupptöku úrskurðar um nafnið Annarósa. Mannanafnanefnd segir, að við fyrstu sýn kunni að virðast sem hér sé um tvö sambærileg tilvik að ræða en svo sé ekki þar sem álit umboðsmanns Alþingis frá 2. maí sl. hafi byggst á því að heimilað yrði að taka upp erlendu nafnmyndina Annalísa sem íslenskt eiginnafn en hafi ekki falið í sér beiðni um viðurkenningu á nýrri nafnmynd sem mynduð væri úr tveimur íslenskum eiginnöfnum.

Mannanafnanefnd hafnaði á sínum tíma nafninu Eleonora á þeim forsendum að það teldist ekki ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls né hefði rithátturinn áunnið sér hefð í íslensku máli. Fyrir nefndina voru lögð viðbótargögn, m.a. ljósrit úr hjúkrunarkvennatali, sennilega útgefnu eftir 1962, þar sem fram kemur rithátturinn Eleonora og einnig ljósrit úr kirkjubók frá 1911 þar sem gerð er grein fyrir fæðingu meyjar þar sem nafn sömu manneskju er ritað Eleonóra. Nefndin taldi hins vegar að engin veigamikil rök hefðu komið fram fyrir því að taka málið upp aftur.

Fram kemur í fundargerð nefndarinnar, að kvenmannsnafnið Janetta hefur verið tekið til greina. Sömuleiðis stúlkunafnið Elínheiður, millinafnið Diljan og karlmannsnafnið Ljósálfur. Nefndin hefur hins vegar hafnað eiginnafninu Hnikarr, þar sem það telst ekki ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls né hafi rithátturinn áunnið sér hefð í íslensku máli. Þá hefur nefndin hafnað ósk um að skíra stúlkubarn nafninu Mar þar sem það telst karlmannsnafn. Þá hafnaði nefndin rithættinum Spartacus en heimilaði nafnið Spartakus.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka