Kynbundinn launamunur eykst lítillega hjá viðskipta- og hagfræðingum

Meðaltal heildarmánaðarlauna viðskipta- og hagfræðinga er tæplega 519 þúsund krónur samkvæmt nýrri kjarakönnun, sem Félag viðskipta- og hagfræðinga hefur látið gera í samstarfi við Verzlunarmannafélag Reykjavíkur og Kjarafélag viðskipta- og hagfræðinga. Fyrir tveimur árum voru mánaðarlaunin rúmlega 475 þúsund krónur að jafnaði.

Fram kemur í könnuninni að laun kvenna hafa hækkað örlítið meira frá árinu 2003 en karla. Heildarlaun kvenna hækka um 10,8% en karla um 10% milli mælinga. Þegar ekki er tekið tillit til annarra þátta virðist launamunur kynjanna nú örlítið minni en fyrir tveimur árum.

Karlar hafa tæplega 29,6% hærri heildarlaun en konur samanborið við tæplega 30,6% launamun árið 2003 og 21,6% árið 2001. Þegar launamunurinn hefur verið leiðréttur miðað við fjölda vinnustunda á viku er hann 21,5% en var 17% í kjarakönnun FVH 2003 og tæplega 15% árið 2001. Þegar launamunur kynjanna er svo leiðréttur með tilliti til fleiri þátta eins og menntunar, starfs, atvinnugreinar, aldurs, vinnuframlags, mannaforráðs og starfsaldurs kemur í ljós að kynbundinn launamunur hjá viðskipta- og hagfræðingum er nú 7,6% en var 6,8% árið 2003.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert