Stífla brast í Sandá, skammt frá Laugarvatni, um sjöleytið í gærkvöld og olli flóðbylgjan, sem myndaðist, skemmdum á stíflu neðar í ánni og varð þetta til þess að tvær virkjanir í ánni urðu óvirkar. Mesta mildi var að ekki varð slys á fólki því skömmu áður hafði fólk verið að líta eftir lambfé niður með ánni þar sem flóðbylgjan fór um. Ekki er vitað til að fé hafi farist en ein kind kom svamlandi upp úr aurnum niðri við þjóðveg, að sögn sjónarvotta.
Stíflurnar voru reistar vegna virkjana sem eru í einkaeigu og framleiða rafmagn inn á kerfi RARIK. Aðeins eru tvö ár síðan neðri virkjunin var tekin í notkun og sú efri var tekin í notkun í fyrra.
Tveir af eigendum virkjananna, þeir Snæbjörn Þorkelsson og Sigurður Jónsson, báru sig vel í gærkvöld og gerðu ekki ráð fyrir að viðgerð tæki miklu meira en einn mánuð. Þeir töldu að tækjabúnaður hefði ekki orðið fyrir skemmdum.