Hópslagsmál brutust út á Ráðhústorgi á Akureyri undir morgun

Á meðan allt lék í lyndi á Ráðhústorgi í gærkvöldi.
Á meðan allt lék í lyndi á Ráðhústorgi í gærkvöldi. AP

Hópslagsmál brutust úr á Ráðhústorginu í miðbæ Akureyrar um hálf fimmleytið í morgun, samkvæmt upplýsingum lögreglu. Talið er að um tuttugu manns hafi tekið þátt í slagnum, aðallega yngra fólk af báðum kynjum. Lögreglan skakkaði leikinn og voru sex fluttir í fangageymslur. Var læknir fenginn til að líta á tvo, sem voru með minniháttar skrámur og marbletti.

Allnokkur mannfjöldi var í miðbænum í nótt í ágætu veðri. Lögreglan segist ekki vita hver upptök slagsmálanna hafi verið, en allt bendi til að þetta hafi byrjað með smávægilegum stympingum sem síðan hafi breiðst út. Lögreglan naut aðstoðar dyravarða frá tveim veitingastöðum við að hemja mannskapinn. Ekki er talið að neinir eftirmálar verði af málinu.

Erilsamt var hjá lögreglunni á Akureyri í alla nótt, mikil ölvun í bænum og umgengni skelfileg. Voru það ekki síst blóm og annar gróður sem varð fyrir barðinu á þjóðhátíðarskapi bæjarbúa.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir aftur á móti að þar hafi nóttin verið róleg. Aðalvarðstjóri í Reykjavík sagði hana hafa gengið mun betur en undanfarin ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka