Forráðamenn Félags íslenskra bifreiðaeigenda ætla að fara fram á að yfirvöld dragi úr skattlagningu á eldsneyti í ljósi síhækkandi heimsmarkaðsverðs. Verður erindi þessa efnis sent fljótlega í vikunni. Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, sem var á fundi norrænu bifreiðaeigendafélaganna, tjáði Morgunblaðinu í gær að hávær umræða væri innan systurfélaganna á Norðurlöndunum um að fá yfirvöld í löndunum til að draga úr skattlagningu. Runólfur sagði ástandið að undanförnu mjög óeðlilegt og hann minnti á að fordæmi væru fyrir því að íslensk yfirvöld hefðu lækkað vörugjald á eldsneyti tímabundið vegna verðlagsþróunar. Benti hann á að auknar tekjur ríkissjóðs vegna virðisaukaskatts af hækkandi eldsneytisverði yrðu 400 til 500 milljónir króna á árinu miðað við verðþróunina frá ársbyrjun. Sagði hann neytendur fyrirsjáanlega munu greiða um tveimur milljörðum króna meira vegna hærra verðs á árinu.
Framkvæmdastjóri FÍB sagði að endurskoða yrði í heild skattlagningu á eldsneyti. T.d. væri nánast enginn munur á verði bensíns og dísilolíu, eins og ætlunin hefði verið þegar tekið var upp olíugjald á dísilolíu með lagabreytingu um síðustu mánaðamót. Gjaldið var upphaflega ákveðið 45 krónur í lögunum en lækkað í 41 krónu áður en lögin komu til framkvæmda.
FÍB mun í vikunni senda stjórnvöldum erindi um að draga úr skattlagningu á eldsneyti eftir að stjórnin hefur gengið frá erindinu formlega.
Algengt verð á bensíni var í gær 107,90 kr. til 109,20 kr. á sjálfsafgreiðslustöðvum og á dísilolíu 107,60 kr. til 109 kr.