Vildu koma í veg fyrir frekara „virkjanabrjálæði”

Tjald í búðum mótmælenda við Kárahnjúka í dag.
Tjald í búðum mótmælenda við Kárahnjúka í dag. mbl.is/Ólafía Herborg

Ólafur Páll Sigurðsson, einn mótmælendanna við Kárahnjúka í dag, segir mótmælendur hafa verið að gera það sem Íslendingar hefðu átt að gera í upphafi því þá hefði það fallega ósnortna land, sem þar var, hugsanlega verið óskemmt í dag. Þá sagði hann mótmælaaðgerðunum einnig ætlað að koma í veg fyrir fleiri “virkjanabrjálæði” sem virðist hafa heltekið stjórnvöld.

Ólafur sagði erfitt að segja til um fjölda mótmælenda sem hefðust við á svæðinu en að það væri stöðug hreyfing á tjaldbúum og að nú væru þar á fjórða tug manna af blönduðu þjóðerni, úr hinum ýmsum stéttum þjóðfélagsins.

Mótmælendur sem blaðamaður náði tali af sögðust ýmist hafa komið gagngert til landsins til að dvelja á svæðinu til að mótmæla eða hafa verið á ferð um landið og heyrt af mótmælunum og ákveðið að slást í hópinn.

Eitt af því sem mótmælendur hafa gert er að grafa skurð við enda bílastæðis en það segja þeir gert til að koma í veg fyrir utanvegaakstur að tjaldbúðum mótmælenda. Einnig segjast þeir hafa tínt upp mikið af rusli sem m.a. hafi verið Impregilo.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert