Leyfi mótmælenda fyrir tjaldbúðum við Kárahnjúka afturkallað

Tjaldbúðir mótmælenda við Kárahnjúka.
Tjaldbúðir mótmælenda við Kárahnjúka. mbl.is/Ólafía Herborg

Prestsetrasjóður, sem fer með forsvar fyrir landið þar sem tjaldbúðir mótmælenda við Kárahnjúka eru, er búinn að afturkalla heimild mótmælendanna til að vera þar sem þeir eru. Að sögn Helga Jenssonar, sýslufulltrúa hjá sýslumanninum á Seyðisfirði, var það gert samkvæmt beiðni frá sýslumanni í ljósi þess að mótmælin hafa verið allt annað en friðsöm. Mótmælendum verður gefinn stuttur frestur til að yfirgefa svæðið. Liðsauki hefur verið sendur til lögreglunnar á Egilsstöðum vegna atburða næturinnar.

„Þetta var gert samkvæmt beiðni frá okkur því þetta er frekar óhentugur staður fyrir búðirnar, þetta er dálítið nálægt vinnusvæðinu og erfitt að eiga við löggæsluna út af því,“ segir Helgi. „Þess vegna óskuðum við eftir því að leyfið yrði afturkallað því að mennirnir hafa náttúrulega ekki staðið við það sem var sagt, að þetta yrðu friðsöm mótmæli. Þetta er búið að vera allt annað en friðsamlegt,“ bætir Helgi við.

„Lögreglan fer nú í að tilkynna mótmælendum að leyfið hafi verið afturkallað og í framhaldinu verður þeim gefinn stuttur frestur til að fara. Síðan verða búðirnar bara teknar burtu ef þær verða ekki farnar. Fresturinn sem við gefum verður ekki langur,“ segir Helgi.

Helgi segir mótmælendur hafa látið ófriðlega þegar lögregla ætlaði að vísa þeim frá vinnusvæðinu við Kárahnjúka í nótt þar sem þeir hlekkjuðu sig við bíla og tæki og unnu skemmdir. „Menn veittust að lögreglumönnunum þegar þeir voru að sinna sínum skyldustörfum og þá voru þeir auðvitað bara handteknir. Það var ekki auðvelt því við það veittust enn fleiri að lögreglumönnunum. Þrír forsprakkar hópsins voru handteknir og þeir eru enn í haldi lögreglunnar,“ segir Helgi.

Aðspurður segir Helgi að lögregla hafi ekki beitt mótmælendur óþarfa harðræði. „Það held ég að sé alveg fráleitt. Ef að lögreglan er að sinna sínum skyldustörfum og menn veitast að henni, reyna jafnvel að taka lögreglumennina hálstaki, þá náttúrulega verður meiri harka heldur en ella því lögreglumennirnir verða að verja sig,“ segir Helgi.

Nokkrir lögreglumenn hafa verið sendir til Egilsstaða til að hjálpa til við löggæslustörf. „Það verður bara bætt við lögreglumönnum því ástandið er svona. Þetta er í samstarfi við ríkislögreglustjóra, við óskuðum eftir þeirri aðstoð sem er möguleg og það er ekki skortur á henni,“ segir Helgi að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert